01. feb. 2013

Stefnumótunarnefnd Evrópusamtaka sveitarfélaga fundar í París

Helstu mál á dagskrá voru breytingar á evrópskum persónuverndarreglum, starfs- og fjárhagsáætlun samtakanna og flutningur aðalskrifstofunnar til Brussel

  • photocemr-policy-com-jan-2013

Stefnumótunarnefndin fundar venjulega tvisvar á ári en að þessu sinni sátu fundinn fyrir Íslands hönd Aldís Hafsteinssdóttir, bæjarstjóri Hveragerðis, Jórunn Einarsdóttir, bæjarfulltrúi og Óttarr Proppé borgarafulltrúi ásamt Guðrúnu D. Guðmundsdóttur, forstöðumanni Brussel-skrifstofu Sambandsins.

Varaborgarstjóri Parísarborgar, Anne Hidalgo, bauð fundarmenn velkomna ásamt borgarstjóra Bordeaux-borgar og fyrrverandi forsætisráðherra Frakklands, Alain Juppé. Anne lagi sérstaka áherslu á jafnréttismál í opnunarerindi sínu og áréttaði mikilvægi þess að auka hlut kvenna í ákvarðanatöku á sveitarstjórnarstigi. CEMR stofnaði í fyrra fa cemr-polcom2013stanefnd um kynjajafnrétti en á fundinum á miðvikudag samþykkti stefnumótunarnefndin einnig að breyta starfsreglum sínum til að jafna hlutfall kynjanna í pólitískum nefndum og ráðum samtakanna. Gæta skal þess að hlutfall kynjanna sé sem jafnast og ekki minna en 40% næst þegar skipað verður, að loknum næstu sveitarstjórnarkosningum í hverju landi.

Fjármál og starfsáætlun CEMR til umræðu

Á fundinum var ársreikningur og framgangur starfsáætlunar síðasta árs til umræðu og fjallað var um nýtt vinnulag samtakanna sem miðar að því að tryggja skilvirkni og auka þátttöku kjörinna fulltrúa í starfi þeirra. Fjárhags- og starfsáætlun CEMR 2013 var einnig til umræðu. Starfsáætlunin ber yfirskriftina “Borgarar í Evrópu”, í tilefni af því að 2013 er Evrópuár borgaranna (e. European Year of Citizens). CEMR mun almennt beita sér fyrir því að hagsmunir sveitarstjórnarstigsins séu í heiðri hafðir í yfirstandandi samningaviðræðum um fjárhagsáætlun ESB fyrir tímabilið 2014-2020 og fyrirkomulag sjóða og áætlana sambandisns á næsta tímabili. Forgangsmál á árinu munu deilast á fimm verkefnasvið:

  • Lýðræði, borgararnir og stækkunarmál
  • Orkunýtni og umhverfismá
  •   Samstarf og alþjóðamál
  • Efnahagsleg, félagsleg og svæðisbundin samheldni
  • Sveitarfélög sem atvinnurekendur og veitendur þjónustu

Á árinu verður einnig nýr forseti kjörinn og ný stefnumótunarnefnd og framkvæmdastjórn samtakanna valin og starfsemi Parísarskrifstofu CEMR verður flutt til Brussel til að hægræðingar. Þá gengu sveitarfélagasambönd Moldóvu og Úkraínu til liðs við samtökin.

Fyrirhugaðar breytingar á persónuverndarreglum ESB áhyggjuefni fyrir sveitarfélög

illu_data_protectionÁ fundinum samþykki stefumótunarnefndin umsögn CEMR um fyrirhugaðar breytingar á persónuverndarreglum ESB sem fela í sér ríkari rétt til verndunar persónuupplýsinga. Forsaga málsins er að í byrjun árs 2012 birti framkvæmdastjórn ESB drög að nýrri reglugerð um persónuvernd. Persónuverndarreglur snerta sveitarfélög á margan hátt en sérstakur rýnihópur fjallar nú um efnið á vettvangi CEMR. Í umsögn sinni kallar CEMR eftir breytingum á gildandi regluverki í stað nýrrar reglurgerðar sem myndi ekki gefa svigrúm til aðlögunar eftir aðstæðum í hverju aðildarríki. Samtökin lýsa áhyggjum af því að hin nýja reglugerð muni hafa umtalsverðan kostnað í för með sér fyrir sveitarfélög, án skýrra hagsbóta fyrir borgarana. Samtökin vekja athygli á því að ólíkt atvinnulífinu beri opinberir aðilar ríkar skyldur gagnvart borgunum og þeir nýti ekki persónuupplýsingar í hagnaðarskyni. Af þeim sökum eigi ekki að setja þá undir sama hatt og einkaðila. CEMR kallar einnig eftir því að starfsmannamál verði undanþegin þar sem reglugerðardrögin séu óskýr þegar kemur að samskiptum launþega og vinnuveitenda og þar sem víða sé tekið á þeim í kjarasamningum. Þá hefur CEMR hefur áhyggjur af því að reglugerðin veiti framkvæmdastjórninni óhóflega heimild til samþykkja afleiddar reglur (e. delegated act) en einnig sé að finna í drögunum fleiri ákvæði sem þurfi að skýra nánar til að tryggja réttaröryggi við meðferð persónuupplýsinga. Fulltrúar CEMR hafa fundað með fulltrúum ESB til skýra sjónarmið sveitarstjórnarstigsins og reyna nú að koma í veg fyrir að reglugerðardrögin verði samþykkt í núverandi mynd.

Persónuverndareglur ESB falla undir EES-samninginn og því myndi reglugerðin geta haft umtalsverð áhrif á íslensk sveitarfélög. Sveitarstjórnarvettvangur EFTA samþykkti ályktun um málið á síðasta fundi sínum í nóvember sl.

Að hefðbundum dagskrárliðum loknum fóru fram tvö málþing undir yfirskriftinni Framtíð Evrópu í kjölfar kreppu og Framlag sveitarstjórnarstigsins til þróunarmála.