11. okt. 2012

Fastanefnd Evrópusamtaka sveitarfélaga um jafnrétti kynjanna fundar í fyrsta sinn

  • GENDER

Á liðnu ári ákvað stefnumótunarnefnd Evrópusamtaka sveitarfélaga (CEMR), sem Samband íslenskra sveitarfélaga á aðild að, að setja á fót fastanefnd um jafnrétti kynjanna. Nefndinni er einkum ætlað að vinna að innleiðingu og framkvæmd Evrópusáttmála sveitarfélaga um jafna stöðu kvenna og karla. Sáttmálinn er frá árinu 2005 en CEMR átti frumkvæði að gerð hans. Um 1000 sveitarfélög og héruð í 24 landi eru aðilar, þ. á m. sex íslensk sveitarfélög, en undirritun felur í sér pólitíska viljayfirlýsingu um að vinna að framgangi jafnréttismála á öllum sviðum, frá félagsþjónustu til skipulagsmála. Íslensku sveitarfélögin hafa unnið saman að innleiðingu Evrópusáttmálans og notið aðstoðar Jafnréttisstofu og sambandsins.

Stofnfundur jafnréttisnefndar Evrópusamtaka sveitarfélaga haldinn í Cádiz

Jafnréttisnefnd CEMR hélt stofnfund sinn í Cádiz á Spáni í lok september en Guðrún D. Guðmundsdóttir, forstöðumaður Brussel-skrifstofu sat fundinn fyrir hönd sambands íslenskra sveitarfélaga. Á dagskrá var starfið framundan en nefndin verður vettvangur sveitarfélaga til að skiptast á upplýsingum um fyrirmyndarverkefni og starfa með Evrópustofnun um jafnrétti kynjanna. Nefndinni er falið að fylgjast með stefnumótun og reyna að hafa áhrif á þróun jafnréttismála er snerta sveitarfélög á vettvangi ESB. Þá er nefndinni falið að undirbúa ráðstefnu í Frakklandi um konur í sveitarstjórnum sem haldin verður í upphafi næsta árs. Sænsk stjórnvöld hafa gengið undan með góðu fordæmi og veitt sænska sveitarfélagasambandinu fé til að styrkja starf nefndarinnar og starf CEMR á sviði jafnréttismála almennt. Sænska sambandið greiðir laun starfsmanns og uppsetningu og vinnu við glæsilega heimasíðu um Evrópusáttmálann sem verður virk í lok árs. Á síðunni veður að finna allar upplýsingar um sáttmálann, jafnréttisáætlanir og ýmis fleiri tæki til að aðstoða sveitarfélög við jafnréttistarf.

Fyrirmyndarverkefni sænska sveitarfélagasambandsins á sviði jafnréttismála

Á fundinum á Spáni voru ýmis fyrirmyndarverkefni á sviði kynjajafnréttis kynnt, þ. á m. afar metnaðarfullt verkefni sænska sveitarfélagasambandsins um kynjasamþættingu og kynjaða fjárhagsáætlanagerð. Sambandið hefur m.a. þróað fræðslupakka um kynjasamþætingu en á heimasíðu verkefnisins er að finna ýmislegt áhugavert efni, þ. á m. skemmtilega kvikmynd sem útskýrir kynjasamþættingu í sveitarfélögum á nýstárlegan og einfaldan hátt.