09. okt. 2012

Stefnumótun sveitarfélaga á sviði endurnýjanlegrar orku

Niðurstöður og tilmæli kynnt á lokaráðsefnu RENREN-verkefnisins í Brussel 18. október nk.

  • Energy_Efficiency_LRG_FOC

Endurnýjanleg orka er ofarlega á baugi Evrópu en Evrópusambandið hefur sett sér metnaðarfull markmið í þessum málum. Ætlunin er að árið 2020 muni 20% orku í sambandinu koma frá endurnýjanlegum orkugjöfum og þannig verði stuðlað að orkuöryggi, samkeppnishæfni ESB og dregið verði úr losun gróðurhúsalofttegunda. ESB fjármagnar ýmis verkefni í þessum tilgangi en Ísland tekur meðal annars þátt í Intelligent Energy Europe-áætluninni sem styrkir verkefni sem ætlað er að auka hlut endurnýjanlegrar orku í Evrópu.

Staða evrópskra sveitarfélaga og héraða í orkumálum eru afar fjölbreytt; í ESB/EES er að finna sveitarfélög sem nota eingöngu kolefnaeldsneyti á meðan önnur, s.s. íslensk sveitarfélög fá meirihluta orku sinnar frá endurnýjanlegum orkugjöfum. Til að stuðla að þekkingarmiðlun á þessu sviði styður INTERREG IV C áætlun ESB við samstarf héraða í Evrópu, meðal annars RENREN-verkefnið sem Fjórðungssamband Vestfirðinga tekur þátt í. 

Lokaráðstefna RENREN-verkefnisins og tilmæli til sveitarfélaga

RENREN-verkefninu er stýrt af Schleswig-Holstein-héraði í Þýskalandi en þátttakendur eru frá 14 svæðum í Evrópu. Til skoðunar eru m.a. viðgangsefni er varða vindorku, virkjun sjávarfalla, sólarorku, jarðvarma, vatnsorku og lífmassa.  Verkefninu, sem hófst árið 2010, lýkur með alþjóðlegri ráðstefnu í Brussel 18. október næstkomandi þar sem niðurstöður verða kynntar ásamt tilmælum RENREN sem ætlað er að hjálpa sveitarstjórnum að móta sér heildstæða stefnu í orkumálum, með sérstakri áherslu á aukna nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa.