02. okt. 2012

Allsherjarþing Evrópusamtaka sveitarfélaga í Cádiz

Dreifstýring, lýðræði og nýsköpun

  • banner-GA-IC

Allsherjarþing Evrópusamtaka sveitarfélaga (Council of European Municipalities and Regions) (CEMR) kom saman í Cádiz á Spáni dagana 26-28. september sl. Samband íslenskra sveitarfélaga er aðili að CEMR sem eru stærstu samtök sveitarstjórnarstigsins í Evrópu. Aðild eiga landssambönd bæja, sveitarfélaga og héraða frá 40 löndum Evrópu. Allsherjarþing CEMR kemur saman á þriggja ára fresti en að þessu sinni tók Óttarr Ólafur Proppé borgarfulltrúi, ásamt Önnu Guðrúnu Björnsdóttur sviðsstjóra alþjóðasviðs Sambands íslenskra sveitarfélaga og Guðrúnu D. Guðmundsdóttur forstöðumanni Brussel-skrifstofu sambandsins þátt í fundinum.  Um það bil 700 kjörnir fulltrúar frá Evrópu, Ameríku og Afríku sátu þingið.

photo-5Krónprins Spánar
setti þingið; í erindi sínu lagði hann sérstaka áherslu á hlutverk sveitastjórnarstigsins sem útvarðar lýðræðis og mikilvægi sveitarfélaga til að tryggja borgurunum grundvallarþjónustu og réttindi á öllum sviðum mannlífsins. Viviane Reading, framkvæmdastjóri jafnréttis- og réttindamála ESB, hvatti sveitarstjórnarstigið til að styðja við samheldni í Evrópu og Janusz Lewandowski, framkvæmdastjóri fjármála, hvatti sveitarfélög til að beita sér gegn niðurskurði á framlögum til Evrópusambandsins, þar sem ESB fjármunirnir séu á beinan eða óbeinan hátt fé sveitarfélaga og héraða. 

Fjöldi áhugaverðra málstofa og hringborðsumræðna fór þar sem kjörnir fulltrúar, sérfræðingar ESB og fulltrúar félagasamtaka ræddu ýmis málefni. Meðal viðfangsefna voru:

  • Dreifstýring, lýðræði og nýsköpun; fjármál
  • Staða dreifstýringar í heiminum
  • Nútímavæðing almannaþjónustu til að auka skilvirkni, gæði og sjálfbærni
  • Nýsköpun og samstarf við Rómönsku Ameríku
  • Orkunýti og sjálfbærni auðlinda
  • Lýðræði og jafnrétti kynjanna
  • Nýsköpun og hagvöxtur
  • Aðlögun innflytjenda
  • Samstarf til að styrkja evrópska sjálfmynd og samheldni á krepputímum

ottarVel sótt málstofa fjallaði um kreppuna og viðbrögð við henni. Óttarr Ólafur Proppé, borgarfulltrúi, tók þátt í málstofunni og var gerður góður rómur að framlagi hans. Óttar lagði áherslu á mikilvægi þess að endurskapa traust á stofnunum og stjórnmálamönnum og samstarf við borgarana í aðgerðum til að bregðast við kreppunni. Óttarr var síðan beðinn um  að gera nánari grein fyrir hugmyndum sínum og taka saman niðurstöður málstofunnar í lokaumræðum ráðstefnunnar.

Allsherjarþinginu lauk með samþykkt Cádiz yfirlýsingarinnar um dreifstýringu, lýðræði og nýsköpun. Í yfirlýsingunni er áréttuð þörfin á nýrri sýn á umbætur sem byggir á því að evrópsk sveitarfélög og héruð skapi aðstæður sem hlúa að sjálfbærum hagvexti og að forsenda uppbyggingar í Evrópu sé „nýsköpun í þrívídd“ sem grundvallast á samstarfi pólitískra, efnahagslegra og félagslegra aðila.

Nánari upplýsingar, samantekt og erindi er að finna á heimasíðu Evrópusamtaka sveitarfélaga (CEMR).