14. feb. 2012

Breytt lýðfræðileg samsetning Evrópu, málefni eldra fólks og samstaða kynslóðanna til umræðu í Héraðanefnd ESB

  • kona2

Evrópuár virkni á eldri árum og samstöðu kynslóðanna

Evrópusambandið hefur tileinkað árið 2012 virkni aldraðra og samstöðu kynslóðanna (e. European Year of Active Ageing and Solidarity Between Generations).  Evrópuárinu er ætlað að vekja þegna ESB til umhugsunar um hvað breytt lýðfræðileg samsetning ESB hefur í för með sér og hvernig best er að bregðast við þeirri staðreynd að fólk verður eldra og er virkt lengur en áður. Árinu er ætlað að stuðla að aukinni samstöðu kynslóðanna og leita leiða til að tryggja aukið heilbrigði, þátttöku og öryggi eldri borgara í Evrópu og bæta lífsgæði þeirra. Á árinu verður vakin athygli á hugmyndafræðinni sem „virkni á efri árum“ byggir á og jafnframt reynt að greina og kynna fyrirmyndarverkefni á þessu sviði.

Hvað er „virkni á efri árum“?

Í „virkni á efri árum“ felst að eldri borgararar hafi tök á virkri þátttöku í samfélaginu sem lengst. Brýnt er að styðja eldra fólk til að taka lengur þátt í atvinnulífinu, m.a. með umbótum á vinnuumhverfi, með því að laga vinnustaði að þörfum eldra starfsfólks og tryggja endurmenntun o.fl. Heilsuvernd er einnig mikilvæg til að tryggja virka öldrun, ásamt félagslegri aðstoð til að gera fólki kleift að búa lengur í eigin húsnæði. Í þessu samhengi hafa sveitarfélög mikilvægu hlutverki að gegna; til að stuðla að þátttöku eldra fólks og koma í veg fyrir félagslegra einangrun og þau vandamál og hættur sem henni fylgja.

Lækkuð fæðingartíðni rót vandans

Á ráðstefnu sem Héraðanefnd ESB stóð fyrir í tengslum við Evrópuárið var fjallað um þær áskoranir sem breytt lýðfræðileg samsetning Evrópu hefur í för með sér. Vandinn er ekki sá að fólk lifir stöðugt lengur, heldur sá að að fæðingartíðni hefur hríðlækkað á síðustu árum. Evrópa hefur hingað til bætt fyrir þetta með vinnuafli frá öðrum heimsálfum en með lækkandi fæðingartíðni um allan heim verður þetta erfiðara í framtíðinni. Þá má ekki gleyma því að eldra fólk gefur mikið til samfélagsins þó það sé ekki lengur á vinnumarkaði, t.d. í formi fjárhagsaðstoðar til yngra fólks, umönnunar maka, með sjálfboðaliðastarfi – Bretar áætla t.d. að framlag fólks, eldra en 70 ára, í formi sjálfboðavinnu sé um 5 milljarðar evra á ári hverju.  

Í framtíðinni munum við lifa enn lengur. Nýleg rannsókn gerir ráð fyrir að víða í Evrópu muni um helmingur stúlkna sem fæddar eru í lok síðustu aldar lifa þrjár aldir. Miðað við núgildandi kerfi myndum við því eyða þriðjungi ævinnar á eftirlaunum sem gefur auga leið að er ekki sjálfbært.  Ef gert er ráð fyrir 50 ára starfsævi í framtiðinni eins og t.d. Svíar hafa talað um, þá er ljóst að fyrirkomulag vinnu mun mun þurfa að breytast.  Þá er brýnt að grípa til aðgerða til að efla jafnrétti kynjanna - lækkuð fæðingartíðni er m.a. til komin vegna kynjaójöfnuðar; konur hafa komið út á vinnumarkaðinn en bera enn hitann og þungann af heimilistörfum og umönnun fjölskyldunnar. Í kreppunni bera eldri konur oft skarðan hlut frá borði; þær missa vinnuna fyrst og víða fellur gæsla barnabarna í þeirra hlut í versnandi efnahagsástandi.

Fólk á öllum aldri verður að vinna saman að lausnum

Evrópuárið leggur áherslu á virkni á eldri árum en einnig á „samstöðu kynslóðanna“. Í því felst að reynt er að draga úr togstreitu milli kynslóðanna, þ.e. samfélagið allt þarf að laga sig að þörfum eldri borgara en jafnframt takast á við ný viðfangsefni sem blasa við öðrum aldurshópum þannig að þeir geti halda áfram að styðja hver annan og búið saman í sátt og samlyndi. Lausnin lýtur að því að bæta hag allra kynslóða frá vöggu til grafar sem leiðir til aukinna lífsgæða í ellinni en jafnframt sanngjarnara og sjálfbærara samfélags fyrir alla aldurshópa. Mismunandi aldurshópar þurfa að endurskoða áherslur og venjur í samfélaginu í sameiningu að því er varðar borgarskipulag, byggðaþróun, almenningssamgöngur, heilsugæslu, fjölskyldustefnu, menntun og þjálfun, félagslega vernd, atvinnu, borgaralega þátttöku, frístundir o.fl.  Líta verður á lýðfræðilegar breytingar sem tækifæri sem geta fætt af sér nýjar lausnir á efnahags- og félagslegum vandamálum, en þetta mun krefjast nýrrar hugsunar í Evrópu.

Evrópuári um virkni á eldri árum og samstöðu kynslóðanna var formlega ýtt úr vör í janúar en velferðarráðuneytið, Jafnréttisstofa, Landssamband eldri borgara o.fl. koma að skipulagningu ársins á Íslandi.