13. des. 2011

Evrópusamtök sveitarfélaga kalla eftir aukinni þátttöku sveitarstjórnarstigsins í ákvörðunartöku á vettvangi ESB

  • barrosso-policy-com

Stefnumótunarnefnd Evrópusamtaka sveitarfélaga (Council of European Municipalities and Regions) (CEMR) fundaði í Brussel 12.-13. desember sl. Samband íslenskra sveitarfélaga tekur þátt í starfi CEMR sem eru stærstu samtök sveitarstjórnarstigsins í Evrópu. Aðild eiga landssambönd bæja, sveitarfélaga og héraða frá yfir 35 löndum Evrópu. Samtökin eru í fyrirsvari fyrir um 100.000 sveitarfélög og héruð í Evrópu.

Stefnumótunarnefndin fundar venjulega tvisvar á ári en að þessu sinni sátu fundinn fyrir Íslands hönd Aldís Hafsteinssdóttir, bæjarstjóri Hveragerðis, Jórunn Einarsdóttir, bæjarfulltrúi og Óttarr Proppé borgarafulltrúi ásamt Önnu Guðrúnu Björnsdóttur, sviðsstjóra alþjóðasviðs Sambands íslenskra sveitarfélaga og Guðrúnu D. Guðmundsdóttur, forstöðumanni Brussel-skrifstofu Sambandsins.

Áhersla á aukið vægi og aðkomu sveitarstjórnarstigsins að stefnumótun og lagasetningu á vettvangi ESB

Í tilefni af 60 ára afmæli Evrópusamtaka sveitarfélaga hófst fundurinn á ráðstefnu þar sem fjallað var annars vegar um „samstarfsstjórnun“ (e. governing in partnership) í Evrópu og hins vegar um framtíð byggðastefnu ESB. Helstu yfirmenn Evrópustofnana sem hafa með höndum byggða- og sveitarstjórnarmál fluttu erindi, þ. á m. José Manuel Barroso, forseti framvæmdastjórnar ESB, Mercedes Bresso, forseti Héraðanefndarinnar og Johannes Hahn, yfirmaður skrifstofu byggðamála, ásamt fulltrúum alþjóðasamtaka sveitarfélaga, samtaka jaðar- og strandsvæða og borgarstjórum frá fjölda Evrópuríkjmynd-policya.

Helstu hagsmunasamtök sveitarfélaga kalla eftir „samstarfsstjórnun“ í Evrópu og á vettvangi ESB

Á fundinum undirrituðu fulltrúar fjögurra stærstu hagsmunasamtaka sveitarstjórnarstigsins; Evrópusamtök sveitarfélaga, Samtök Evrópuborga (Eurocities), Héraðaþing Evrópu (AER) og Samtök jaðar- og strandsvæða (CPMR) sameiginlega yfirlýsingu þar sem kallað er eftir aukinni þátttöku sveitarstjórnarstigsins og sk. samstarfsstjórnun við útfærslu Evrópu2020-stefnunnar og stefnumótun, framkvæmd og lagasetningu í aðildarríkjum og á vettvangi ESB almennt. 

Í umræðum á fundinum var lögð áhersla að sveitarstjórnarstigið fái aukið vægi og stjórnsýslustigin stjórni saman á jafnræðisgrundvelli. Mikið var rætt um samstarfsstjórnun, lagskipta stjórnsýslu og ýmsir lýstu áhyggjum af því að slæmt efnahagsástand hafi leitt til aukinnar miðstýringar á kostnað staðbundinna stjórnvalda.  Þá var m.a. rætt um nauðsyn þess að skilgreina nálægðarregluna til að unnt sé að leita úrlausnar fyrir Evrópudómstólnum sé brotið gegn henni. Loks var lögð áhersla á að jafnvel þótt staða ESB hafi versnað á undanförnum árum þá sé álfan enn í fararbroddi á mörgum sviðum.

Stefnumótunarnefndin fjallaði einnig sérstaklega um byggðastefnu ESB á næsta tímabili, afleiðingar efnahagskreppunnar fyrir sveitarfélög og héruð og starf sveitarfélaga til að vinna að lýðræði fyri botni Miðjarðarhafs.

Umsagnir um endurskoðun reglna um opinber innkaup og ríkisaðstoð til almannaþjónustu

Evrópusamtök sveitarfélaga starfa á öllum sviðum sem snerta sveitarstjórnarstigið, svo sem að byggða- og atvinnuþróunarmálum, samgöngumálum, umhverfismálum og jafnréttismálum. Samtökin leitast við að hafa áhrif á evrópska löggjöf til að tryggja að tekið sé tillit til hagsmuna sveitarstjórnarstigsins á öllum stigum. 

Á fundinum var kynnt umsögn um endurskoðun lagaramma um ríkisaðstoð til þjónustu í almannaþágu. Samtökin eru hlynnt tillögum sem miða að því að einfalda regluverk og minnka stjórnsýslubyrðar. Áréttað er að það sé ekki hlutverk ESB að skilgreina hvað telst til þjónustu sem hefur efnahagslega þýðingu annars vegar og þjónustu í almannaþágu sem ekki er unnt að reka á samkeppnismarkaði hins vegar. Samtökin leggja áherslu á mikilvægi samstarfs sveitarfélaga og lýsa áhyggjum af drögum að nýjum reglum um lágmarksfjölda íbúa að því er varðar lágmarksaðstoð sem geti vegið að slíku samstarfi.photo

Á fundinum var einnig samþykkt umræðuskjal um endurskoðun regluverks ESB um opinber innkaup. Samtökin leggja áherslu á að reglurnar megi ekki vera flóknar og verði að gefa möguleika á sveigjanleika eftir aðstæðum. Einnig verður að tryggja að samstarf sveitarfélaga um veitingu þjónustu falli utan reglnanna og að stefnumiðuð opinber innkaup, t.d. til að tryggja umhverfisvernd eða koma félagslegri stefnu í framkvæmd, verði ekki gerð skyldubundin.

Á fundinum var einnig farið yfir fjármál og vinnuáætlun samtakanna fyrir árið 2012. Framkvæmdastjóri sagði frá umfangsmiklu starfi á árinu en samtökin vinna að framgangi hugsjóna um sameinaða Evrópu sem grundvallast á lýðræðislegum gildum og sjálfsstjórnarrétti sveitarfélaga og héraða. Á fundinum var nýtt fyrirkomulag samtakanna kynnt og samþykkt en hið nýja skipulag miðar að því að tryggja skilvirkni og aukna þátttöku kjörinna fulltrúa í starfi samtakanna.