01. jún. 2011

Sveitarstjórnarvettvangur EFTA ályktar um opinber innkaup og lagskipt stjórnkerfi (e. multilevel governance)

  • 2010-11-26-forum-group-256px

Sveitarstjórnarvettvangur EFTA hélt 3. fund sinn í Hamar, Noregi 31. maí-1. júní sl. Vettvangurinn tók til starfa árið 2010 til að gæta hagsmuna sveitarstjórnarstiganna í EES EFTA löndunum gagnvart ESB. Í honum eiga sæti allt að sex kjörnir fulltrúar á sveitarstjórnarstigi frá Noregi og Íslandi. Samband íslenskra sveitarfélaga, Reykjavíkurborg og landshlutasamtök sveitarfélaga tilnefna fulltrúa af hálfu Íslands. Nánar um sveitarstjórnarvettvanginn.

Ályktun um opinber innkaup

3-fundurESB hefur boðað breytingar á evrópskri löggjöf um opinber innkaup sem munu verða teknar upp í íslenska löggjöf á grundvelli EES-samningsins. Í ályktun sveitarstjórnarvettvangsins er lögð áhersla á sérstöðu íslenskra og norskra sveitarfélaga í innkaupamálum vegna fámennis, landfræðilegrar staðsetningar og erfiðra samgangna. Lögð er áhersla á að regluverkið megi ekki vera of flókið og verði að gefa möguleika á sveigjanleika eftir aðstæðum. Annars er hætta á að reglurnar vinni gegn markmiði sínu um sem besta nýtingu opinberra fjármuna. Flókið og ósveigjanlegt regluverk er of dýrt í framkvæmd. Hækka þarf lágmarksviðmið. Í því sambandi sagði Óttarr Proppé fulltrúi Reykjavíkurborgar frá reynslu borgarinnar sem er aðeins í örfáum tilvikum að fá tilboð frá erlendum aðilum þrátt fyrir fjölda útboða á evrópska efnahagssvæðinu. Það þarf líka að vera alveg skýrt að samstarf sveitarfélaga um veitingu þjónustu falli utan reglna um opinber innkaup. Til að rökstyðja það er vísað til þess í ályktuninni að bæði í Noregi og Íslandi er samstarf sveitarfélaga mikilvægur þáttur í flutningi verkefna frá ríki til sveitarfélaga.

Ályktun um lagskipt stjórnkerfi

Flutningsmaður tillögu um lagskipt stjórnkerfi (á ensku: multilevel governance) var Bjarni Jónsson formaður SSNV. Í ályktuninni er tekið undir baráttu Héraðanefndar ESB fyrir því að sveitarstjórnarstigið fái aukið vægi og stjórnsýslustigin stjórni saman á jafnræðisgrundvelli en gestur fundarins Graham Tope, sem er talsmaður Héraðanefndar ESB um bætta lagasetningu, kynnti þessa vinnu nefndarinnar sem byggist m.a. á nýmælum í Lissabonsáttmála ESB. Í ályktuninni er einnig tekið undir viðleitni framkvæmdastjórnar ESB til að einfalda regluverk, minnka stjórnsýslubyrðar og auka samráð. Lögð er áhersla á að þörf er á samsvarandi þróun í EES EFTA samstarfinu. Evrópsk löggjöf hefur veruleg áhrif á sveitarfélög í EES EFTA löndunum á sama hátt og í ESB-löndunum. Rödd þeirra þarf að heyrast í EES samstarfinu. Sveitarstjórnarvettvangurinn er verkfæri til þess og mikilvægt að stofnanir EFTA nýti sér hann í störfum sínum vegna EES-samningsins. Ályktunin og bakgrunnsskjöl eru hér í heild sinni má finna á síðu vettvangsins.

Ályktununum verður komið á framfæri við stofnanir EFTA og Héraðanefndina.

Nýr forseti vettvangsins

Í lok fundarins var Halldór Halldórsson formaður sambandsins kjörinn forseti vettvangsins næsta árið og tekur hann við af Halvdan Skard formanni norska sveitarfélagasambandsins, KS. Næsti fundur verður væntanlega haldinn í lok nóvember í tengslum við EFTA fundi í Brussel.