23. maí 2011

Á döfinni hjá vinnuveitendahópi Evrópusamtaka sveitarfélaga í Brussel

  • Solutions_for_employers

Vinnuveitendahópur Evrópusamtaka sveitarfélaga fjallar um vinnumarkaðsmál er lúta að sveitarfélögum. Samband íslenskra sveitarfélaga tekur þátt í starfinu en hér að neðan er að finna umfjöllun um helstu viðfangefni vorfundar hópsins.

Lífeyrismál

Framkvæmdastjórn ESB hefur kynnt niðurstöður umsagnarferlis um grænbók um lífeyrismál sem lauk í júlí í fyrra. Ráðist var í gerð grænbókarinnar m.a. vegna:

  •  Vaxandi ójafnvægis milli aukinna lífslíka og lækkandi eftirlaunaaldurs- hægt hefur á þessari þróun frá árinu 2000 en víða í Evrópu fer fólk fyrr á eftirlaun en á sjötta áratugnum.
  • Lýðfræðilegra breytinga; Evrópubúar eldast og fæðingatíðni minnkar.
  • Frá 2012 mun fólki á vinnualdri fækka og mörg aðildarríki ESB reyna nú að breyta lífeyriskerfum sínum til að bregðast við þeim vanda.
  • Kreppan hefur enn bætt á vandann þar sem lífeyrissjóðir hafa margir fengið skell og fjárhagur ríkja og atvinnuástand versnar.

Samráðsferlið leiddi í ljós að aðstæður aðildarríkja og forgangsröðun er mjög mismununandi að því er varðar lykilatriði s.s. hækkun eftirlaunaaldurs, umbætur á vinnumarkaði og endurskoðun lífeyriskerfis. Lögð var áhersla á að nauðsyn bæri til að endurbæta lífeyriskerfi til að styðja að tryggja opinberan fjárhag og að lífeyrir nægði til framfærslu. Nauðsynlegt sé einnig að hækka eftirlaunaaldur og koma á samhæfðu evrópsku kerfi þar sem Evrópubúar geti fylgst með öllum lífeyrisréttindum sínum. Þá var áréttað að ESB gegnir mikilvægu hlutverki við að samhæfa lífeyriskerfi í aðildarríkjunum öllum og talið brýnt að reglur ESB um starfstengdan lífeyri (occupational pensions) þarfnist endurskoðunar til að tryggja að ávinningi af innri markaðnum verði náð. Vegna ólíkra aðstæðna í aðildarríkjum er talið brýnt að lífeyrismál verði áfram í þeirra höndum þótt e.k. samráð og samhæfing á vettvangi ESB sé talið nauðsynlegt. Samráðsferlið leiddi í ljós ýmis vandamál sem aðildarríki eiga sammerkt en Evrópuþingið og fjöldi aðildarríkja lagði áherslu á nauðsyn þess að nálægðarreglan sé virt. Hvítbók um lífeyrismál, sem byggir á samráðsferlinu, er væntanleg í haust.  Þá verður tilskipun um stofnanir fyrir starfstengdan lífeyri einnig endurskoðuð á þessu ári. Kynningu um lífeyrismál er að finna hér.

Aðgerðaáætlun um rafræna stjórnsýslu (nútímavæðing almannaþjónustu)

Aðgerðaáætlun ESB um rafræna stjórnsýslu fellur undir eitt flaggskipa Evrópu2020-áætlunarinnar;  „Rafræn Evrópa“ (Digital Agenda for Europe). Áætluninni er ætlað að bæta aðgang að almannaþjónustu um alla Evrópu með því að aðstoða innlend stjórnvöld við að auka og bæta þjónustu sem aðgengileg er á vefnum. Áætlunin setur fram fjörutíu ráðstafanir á næstu fimm árum sem ætlað er að gera ESB-borgurum og fyrirtækjum kleift að nýta sér rafræna þjónustu til þess m.a. að skrá fyrirtæki, sækja um og fá aðgang að félags- og heilbrigðisþjónustu, skrá sig í háskóla og svara útboðum. Bætt rafræn þjónusta getur aukið samkeppnishæfni Evrópu og gert stjórnvöldum kleift að bjóða bætta þjónustu á hagkvæman hátt á tímum efnahagsþrenginga. Af þeim sökum leggur áætlunin áherslu á rafræna stjórnsýsla fyrir borgara verði aukin um 50% til ársins 2015 og í 80% fyrir fyrirtæki (sjá minnisblað ESB IP/10/581, MEMO/10/199 og MEMO/10/200).

Aðildarríki ESB munu gegna lykilhlutverki við að koma aðgerðaáætluninni í framkvæmd en framkvæmdastjórnin mun bæta skilyrði til að tryggja framboð rafrænnar þjónustu yfir landamæri, s.s. að því er varðar rafræn skilríki.

Áætlunin lítur að vinnuveitendum að því leiti að hún miðar að því að bæta og nútímavæða almannaþjónustu, og í því sambandi að þjálfa starfsfólk sveitarfélaga til að það geti tileinkað sér nýjungar á þessu sviði. Kynningu á áætluninni er að finna í hér.

Evrópuár virkni aldraðra og samstöðu kynslóðanna 2012 (European Year of Active Ageing and Solidarity Between Generations)

Evrópuárinu er ætlað að stuðla „virkri öldrun“ og aukinni samstöðu kynslóðanna. Með „virkri öldrun“ er átt við aðgerðir til að tryggja aukið heilbrigði, þátttöku og öryggi eldra fólks með það að markmiði að lífsgæði eldri borgara í Evrópu séu sem mest. Á árinu verður vakin athygli á hugmyndafræðinni sem „virk öldrun“ byggir á og jafnframt reynt að greina og kynna fyrirmyndarverkefni á þessu sviði. Kynningu á árinu er að finna hér.

Aðgerðir til að draga úr einelti og ofbeldi á vinnustað

Rammasamningur um einelti og ofbeldi á vinnustað var handsalaður á milli Evrópusamtaka launafólks (ETUC) og Evrópusamtaka atvinnurekenda (BUSINESSEUROPE/UEAPME/CEEP) árið 2006 og tók hann gildi árið 2007. Eftir undirritun höfðu aðildarsamtökin allt að þrjú ár til að hrinda honum í framkvæmd í aðildarríkjunum. Á Íslandi eru það Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins sem hafa skuldbundið sig til að koma samningnum í framkvæmd.

Samningurinn er rammasamningur þar sem hugtök og viðfangsefni eru skilgreind og kveðið er á um helstu réttindi og  skyldur aðila á vinnustað, bæði launafólks og atvinnurekenda. Samningurinn kveður á um meginreglur varðandi aðferðafræði við að fyrirbyggja og bregðast við einelti og ofbeldi á vinnustað ef slík mál koma upp. Hann lætur hins vegar aðilum vinnumarkaðarins í hverju landi fyrir sig og á vinnustöðunum eftir að útfæra efnið frekar og koma því í framkvæmd.

Danska sveitarfélagasambandið, samtök opinberra starfsmanna og danska héraðasambandið hafa tekið höndum saman um áhugavert verkefni til að koma samningnum í framkvæmd hjá vinnustöðum sveitarfélaga. Bækling og nánari upplýsingar um verkefnið er að finna hér.