06. maí 2011

„Snjallréttur“ - framkvæmdastjórn ESB kynnir tillögur um umbætur í lagasetningu

  • red_tape

Í lok síðast árs sendi framkvæmdastjórn ESB þinginu og ráðinu orðsendingu (e. communication) sem ber yfirskriftina Smart regulation in the European Union.   Skjalið er framhald umbótavinnu sem hófst árið 2001 en á réttum áratug hefur lagasetning sambandsins batnað nokkuð að því er varðar þátttöku sveitarstjórnarstigsins og héraða í þróun og útfærslu löggjafar og mati á áhrifum hennar. Lissabon-sáttmálinn styrkti aðkomu sveitarstjórnarstigsins umtalsvert en enn skortir á að samráð sé fullnægjandi. 

Snjallréttur

Framkvæmdastjórnin hefur lagt fram tillögur um „snjallrétt“ (e. smart regulation) í þríþættum tilgangi. Til þess að:

  • Vinna áfram að einföldun núgildandi regluverks og draga úr skrifræði; fjarlægja tvíteknar reglur og kröfur, nema úr gildi úrelta löggjöf og minnka skrifræði um 25% til ársins 2012.
  • Bæta og auka kostnaðarmat á áhrifum gildandi laga og mat á virðisauka þeirra, ekki aðeins að því er varðar einstakar tilskipanir heldur á heilu stefnusviðunum (í fyrsta kasti að því er varðar umhverfismál, samgöngur, iðnað og vinnumarkaðs- og félagsmál) með svokölluðum "hæfni athugunum“ (e. fitness check). Framkvæmdastjórnin mun m.a. auka ex post mat, sem nú þegar er framkvæmt á löggjöf er tengist opinberum innkaupum, starfsmenntun og starfsskilyrðum.
  • Halda áfram mati á áhrif um við samningu nýrrar löggjafar og stefnumótunar sem mun fyrst og fremst lúta að efnahagslegum og félagslegum áhrifum svo og umhverfisáhrifum af nýjum verkefnum. Í raun ber framkvæmdastjórninni einnig að líta á svæðisbundin áhrif (e. territorial), sérstaklega fyrir stað- og svæðisbundin yfirvöld, en Héraðanefndin hefur bent á að þetta sé sjaldnast gert.

Þá er einnig lagt til að umsagnartími fyrir hagsmunaðila og íbúa sé lengdur úr átta í tólf vikur og að framkvæmdastjórnin leiti frekar annarra leiða að setja löggjöf um efnið.  

Loks hefur framkvæmdastjórnin falið hópi sérfræðinga að gera skýrslu um fyrirmyndaraðferðir aðildarríkja við innleiðingu ESB löggjafar. Skýrslan verður birt í nóvember 2011. Á sama tíma mun framkvæmdastjórnin greina og gera skýrslu um starfshætti ríkja við innleiðingu ESB löggjafar, en skýrslunni er ætlað að greina sérstaklega það sem nefnt er „gullhúðun“ löggjafar (gold-plating), þ.e. þegar ríki setja lög  sem er mun umfangsmeiri og íþyngjandi en ESB löggjöfin sem verið er að innleiða gerir kröfur um. Þá biður framkvæmdastjórnin einnig aðildarríkin sjálf um að gera skýrslur um innleiðingu ESB löggjafar. 

Kynningu á „snjallrétti“ má finna hér.

Álit Héraðanefndar ESB

Héraðanefnd ESB, sem skipuð er kjörnum fulltrúum er skipuð fulltrúum bæjar- og héraðsstjórna, hefur unnið álit um tillögur framkvæmdastjórnarinnar og mun álykta um efnið í júní. Nefndin lýsir ánægju sinni með tillögurnar enda þótt  hún telji að gera eigi stað-og svæðisbundnum yfirvöldum hærra undir höfði. Nefndin er hlynnt breytingum sem miða að því að draga úr skrifræði og einfalda reglur, einkum vegna „gullhúðunar“  í tilteknum löndum. Í drögum að áliti nefndarinnar hvetur hún framkvæmdastjórnina m.a. til þess að auka samráð við sveitarfélög og svæði  við samningu löggjafar og mat á áhrifum hennar og þegar valdar eru leiðir til að innleiða stefnumið ESB.

Afleiðingar fyrir íslensk sveitarfélög

Þar sem allt að 70% af Evrópulöggjöf kemur til framkvæmda á sveitarstjórnarstiginu þá er ljóst að bætt lagasetning getur dregið úr skriffræði og ákvöðum fyrir stjórnsýsluna - t.d. í tengslum við opinber innkaup -  til mikilla hagsbóta fyrir sveitarfélög, einkum þau smærri sem hafa yfir takmörkuðum mannafla og fjármunum að ráða.