11. feb. 2011

Ný tækifæri fyrir sveitarfélög í Menntaáætlun Evrópusambandsins

  • SIS_Stjornsysla_sveitarfel_190x160

Comenius Regio-áætlunin

Áætluninni er ætlað að aðstoða sveitastjórnir og svæðisskrifstofur að setja af stað evrópsk samvinnuverkefni á sviði skólamála. Samstarfsverkefnin geta til dæmis falið í sér starfsmannaskipti, þjálfun kennara, jafningjafræðslu eða námsheimsóknir. Þá er ótalin ýmis konar önnur starfsemi sveitarfélaga sem styrkt er svo sem kannanir, rannsóknir, nýjar kennsluaðferðir og ýmis konar herferðir. Í svæðasamstarfsverkefnum eru styrkir veittir til verkefnavinnu og ferða þátttakenda tveggja sveitarfélaga í Evrópu. Styrkupphæð allt að 25.000 €.

Fyrirhugað er að halda samnorræna Regio ráðstefnu næsta haust á Íslandi til að kynna áætlunina og gæti þessi möguleiki verið kjörinn fyrir sveitafélög sem þegar eru í  vinabæjarsamstarfi.

Nánari upplýsingar fást hjá Þorgerði Evu Björnsdóttur, Verkefnastjóra Comenius, Landsskrifstofu Menntaáætlunar ESB, netfang: teva@hi.is og á heimasíðu Menntaáætlunar ESB á Íslandi: http://lme.is/id/108

Námsheimsóknir til Evrópu

Áætlun um námsheimsóknir er fyrir stefnumótendur, þá sem taka ákvarðanir og sérfræðinga á sviði menntunar og almennrar starfsþjálfunar.  Sveitarstjórnarmenn eru sérstaklega tilteknir. Áætlunin felst í því að boðið er í 3-5 daga námsheimsóknir til 31 Evrópuríkis (ESB lönd, Ísland, Liechtenstein, Noregur og Tyrkland), þar sem menntun er kynnt út frá fyrirfram ákveðnum sjónarhóli.  Árangursríkar og stefnumótandi aðgerðir eru kynntar ásamt fyrirmyndarverkefnum. Námsheimsóknir eru góður vettvangur  til að mynda tengslanet til framtíðar því þarf gefst einnig kostur á að hitta og skiptast á skoðunum við starfssystkini frá öðrum Evrópulöndum.  Oftast er töluð enska, en einnig er hægt að velja heimsóknir þar sem töluð er þýska, franska eða spænska. Gert er ráð fyrir að styrkur nægi fyrir ferð og uppihaldi að mestu.

Hvaða svið er hægt að kynna sér ?
• Framfarir hvað varðar aðgang, jafnræði, gæði og skilvirkni í menntun og þjálfun
• Menntun og þjálfun sem miðar að því að styrkja stöðu einstaklinga á vinnumarkaði
• Framkvæmd sameiginlegra evrópskra staðla, meginreglna og ramma fyrir símenntun
• Stefnur og viðfangsefni í stefnumótun símenntunar

Yfirlitsrit með kynningu á þeim nær 400 heimsóknum sem standa til boða á næsta ári er að finna hér.

Umsóknarfrestir og umsóknir:
Umsóknarfrestur fyrir tímabilið september 2010 – febrúar 2011 er 31. mars 2010, og fyrir tímabilið mars 2011 – júní 2011 er umsóknarfrestur 15. okóber 2011.

Fylla þarf út eyðublað á netinu og senda útprentun af því til Landsskrifstofu Menntaáætlunarinnar. Nánari upplýsingar fást á heimasíðu áætlunarinnar http://studyvisits.cedefop.europa.eu/ og hjá Ástu Sif Erlingsdóttur, netfang: astasif@hi.is.

Upplýsingabæklingur sérstaklega ætlaður aðilum vinnumarkaðarins.