03. feb. 2011

Samningahópur um byggðamál fundar með framkvæmdastjórn ESB

  • Rýnifundur

Löggjöf Evrópusambandsins skiptist í 35 kafla og er samið um hvern þeirra fyrir sig. Áður en eiginlegar viðræður um einstaka samningskafla hefjast verður að greina löggjöf umsóknarríkis í því skyni að sjá hve miklu leyti hún samræmist löggjöf ESB. Þetta nefnist rýnivinna (e. screening process), sem fer fram á rýnifundum þar sem samningsaðilar útskýra löggjöf sína. Markmiðið er að afmarka þá þætti sem viðræður þurfa að beinast að. Samningahópur um byggða- og sveitarstjórnarmál fjallar um 22. kafla en þar er að finna löggjöf er lýtur að samþykkt og framkvæmd áætlana sem varða uppbyggingar- og byggðaþróunarsjóði ESB. Málaflokkurinn fellur ekki undir EES samninginn. Samband íslenskra sveitarfélaga á fimm fulltrúa í samningahópnum.

Kynningarfundur til að varpa ljósi á það að hve miklu leyti löggjöf Íslands samræmist löggjöf ESB

Á fyrsta rýnifundi um byggðamál kynnti framkvæmdastjórn ESB áætlanagerð, stofnanauppbyggingu og mótfjármögnun vegna uppbyggingar- og byggðaþróunarsjóða ESB. Sjóðirnir eru þrír: Atvinnu- og byggðaþróunarsjóður ESB, Félags- og mannauðssjóður ESB og Samheldnisjóður ESB. Sjóðunum er ætlað að vinna að þremur markmiðum: Samleitni (81,5% fjármagns), samkeppnishæfni og atvinnusköpun (15,8%) og samstarfi milli svæða innan Evrópu (2.6%). Starfsemi sjóðanna er skipulögð til 7 ára í senn en á tímabilinu 2007-2013 verða um 350 milljarðar evra til ráðstöfunar.

Þar sem þjóðarframleiðsla á mann mun væntanlega verða áfram meiri en 75% af meðaltali í ESB þá mun Ísland líkast til ekki uppfylla skilyrði til þess að fá styrki úr samheldnisjóðnum. Því var ekki fjallað um hann að neinu marki heldur horft til hinna sjóðanna tveggja. Ísland myndi þar líkast til falla undir markmið um samkeppnishæfni og atvinnusköpun og markmið um svæðasamstarf - en ekki samleitnimarkmið.

Á fundinum svöruðu fulltrúar framkvæmdastjórnarinnar spurningum samningahópsins og skýrðu nánar ýmsa þætti löggjafar ESB á sviði byggðamála. Þátttakendur á fjarfundi í utanríkisráðuneytinu gátu einnig spurt spurninga og tekið þátt í umræðum.

Þátttaka í byggðastefnu ESB kallar á uppbyggingu á þekkingu og þjálfun í nýju verklagi í byggðamálum og stjórnunaruppbyggingu

Samið er um uppbyggingar- og byggðaþróunaráætlanir við ESB en framkvæmdin er á ábyrgð stjórnvalda í hverju aðildarríki. Ljóst er að þátttaka í byggðastefnu ESB kallar á stjórnunaruppbyggingu þar sem Ísland þyrfti að búa yfir nægri getu til að geta sinnt framkvæmd og eftirliti með styrkjum ESB. Þá myndi þátttaka kalla á breytta starfshætti þar sem aðildarríki verða að laga sig að aðferðafræði ESB, s.s. áætlanagerð til margra ára, þróun verkefnahugmynda til að ná fram markmiðum í áætlunum og ákveðnum aðferðum við mat og eftirfylgni verkefna. Það ferli krefst vandaðs undirbúnings og umsýslu. Þá er einnig ljóst að fjárhagsleg áhrif þátttöku yrðu umtalsverð vegna þess framlags sem aðildarríki geta notið úr sjóðunum til framkvæmda á byggðastefnu ESB. Þess ber að geta að meginreglan er sú að til þess að úthluta megi til verkefna þarf að koma til mótframlag frá opinberum aðilum eða einkaaðilum sem nemur um helmingi af heildarkostnaði.

Næsti rýnifundur mun fela í sér kynningu af hálfu Íslands þar sem samningahópurinn mun útskýra íslenska löggjöf og aðstæður sem máli skipta í tengslum við uppbyggingar- og byggðaþróunarsjóði sambandsins og 22. kafla almennt.