25. sep. 2015

Hvergi minnst á sveitarfélög í EES-samningnum en þau framkvæma samt 75% EES-löggjafarinnar!

Sveitarfélög koma að framkvæmd allt að 75% Evrópulöggjafarinnar, svo fyrir liggur að flestar ákvarðanir á EES-vettvangi varða þau á einn eða annan hátt. Sveitarfélögum ber að framfylgja EES-samningnum og þau eru mikilvægasti framkvæmdaraðili samningsins. Samt er hvergi á þau minnst í EES-samningnum!

Þetta kom fram í máli Guðrúnar Daggar Guðmundsdóttur, forstöðumanns skrifstofu Sambands íslenskra sveitarfélaga í Brussel, á fjármálaráðstefnu sveitarfélaganna. 

Í ljósi þess sem segir í inngangi kemur ekki á óvart að íslensk sveitarfélög haldi úti skrifstofu í Brussel. Forystusveit þeirra vill einfaldlega vera nálægt vettvangi ESB til að fylgjast með og gæta hagsmuna sveitarfélaganna.

Með EES-samningnum fengu EFTA-ríkin aðgang að innri markaði ESB gegn því að taka upp löggjöf ESB um meginatriði hins innri markaðar, fjórfrelsið svokallaða: ferðafrelsi fólks og frjálsan flutning vöru, þjónustu og fjármagns. Þá skuldbundu Ísland og önnur EFTA-ríki sig til að lögfesta flestar reglur ESB um samkeppnismál, opinbera styrki, neytendavernd og vinnulöggjöf, svo og reglur á sviði umhverfismála, svo hið helsta sé nefnt.

„Reynslan leiðir í ljós að umhverfisreglur EES-samningsins hafa mikil áhrif á sveitarfélög. Á því sviði reyndist tilskipun um frárennslismál hvað fjárfrekust og kallaði á útgjöld upp á milljarða króna. Reglur um meðhöndlun úrgangs, vatnsvernd, mat á umhverfisáhrifum og hávaðamörk hafa aukið útgjöld sveitarfélaga en á móti kemur að regluverkið stuðlar að bráðnauðsynlegum umbótum í umhverfismálum á Íslandi,“ sagði Guðrún Dögg.

Dæmi um árangursríka hagsmunagæslu

„Endurskoðun úrgangsreglna ESB stendur nú yfir. Strangari markmið í úrgangsmálum, til dæmis kröfur um hærra endurvinnsluhlutfall og bann við urðun endurvinnanlegs úrgangs, gætu haft umtalsverð áhrif á rekstur íslenskra sveitarfélaga.

Öflug hagsmunagæsla á þessu sviði er því afar mikilvæg, ekki síst með tilliti til þess að hér á landi eru allt aðrar náttúrulegar aðstæður og strjálbýlla en víðast hvar annars staðar í Evrópu.

Starf í tengslum við nýja ESB-tilskipun um orkunýtni bygginga er dæmi um árangursríka hagsmunabaráttu á orku- og umhverfissviði. Til stóð að skylda sveitarfélög til að endurnýja tiltekinn fermetrafjölda í 3% bygginga sinna ár hvert.

Þetta hefði augljóslega haft mikinn kostnað í för með sér fyrir sveitarfélög. Þar að auki hefðu Íslendingar með þessu ekki náð tilætluðum árangri í að draga úr orkutapi og losun gróðurhúsalofttegunda vegna húshitunar. Við notum almennt endurnýjanlega orku og hús hér eru yfirleitt vel einangruð.

Eftir mikinn þrýsting frá sveitarfélögum varð niðurstaðan sú að tilskipunin skyldar einvörðungu ríkið til að endurbæta byggingar en sveitarfélög geta áfram valið orkusparnaðarleiðir sem henta á hverjum stað og á hverjum tíma.“

Nýjar reglur um mat á umhverfisáhrifum

ESB samþykkti í maí 2015 breytingar á tilskipun um mat á umhverfisáhrifum.  Tilskipunin verður tekin svo breytt inn í EES-samninginn og Íslendingar þurfa að breyta löggjöf sinni til samræmis við hana.

„Markmið nýrra reglna er að einfalda stjórnsýsluna og matið, án þess þó að draga úr umhverfisvernd. Ljóst er að ákvæði um að draga úr stjórnsýslubyrðum og auka samráð við sveitarfélög eru til hagsbóta en á móti koma auknar kröfur á öðrum sviðum, til dæmis um vöktun umhverfisáhrifa, sem gæti haft áhrif á rekstur sveitarfélaga.

Þá skiptir höfuðmáli að reglurnar séu ekki innleiddar á Íslandi með óhóflega flóknum hætti, heldur verði sjálfstjórnarréttur sveitarfélaga virtur og komið í veg fyrir óþarfa skriffinnsku.“

Innkaupareglum breytt

Guðrún Dögg nefndi líka að ESB hefði í fyrra samþykkt nýjar reglur um opinber innkaup eftir erfiðar samningaviðræður. Samtök sveitarfélaga, bæði íslensk og erlend, beittu sér í ferlinu og náðu að hafa áhrif á niðurstöðuna.

Þá hefur tekið gildi ný tilskipun um samhæft kerfi rafrænna reikninga í tengslum við opinber innkaup. Henni er ætlað að styðja fyrirætlanir ESB um pappírslausa, umhverfisvæna og skilvirka stjórnsýslu. Ávinningur rafrænna reikninga er talinn vera 1-2% af veltu og útgáfa rafrænna reikninga kostar helmingi minna en pappírsreikningar. Nú eru aðeins 4-5% reikninga í ESB rafrænir.

Nýju reglurnar munu binda íslensk sveitarfélög í framtíðinni og ættu að styðja við innleiðingu rafrænna reikninga á Íslandi. Guðrún Dögg sagði að stærstu sveitarfélögin væru komin nokkuð á veg með rafræna reikninga. Reykjavíkurborg áætlar að slíkt fyrirkomulag geti sparað 130-150 milljónir króna á ári í rekstri sveitarfélagsins.