03. júl. 2017

Fundur stefnumótunarnefndar Evrópusamtaka sveitarfélaga (CEMR)

12.-13. júní á Chios, Grikklandi

  • CEMR-Chios

Sambandið á þrjá fulltrúa í stefnumótunarnefnd CEMR, sem fer með pólitíska yfirstjórn samtakanna og fundar tvisvar á ári. Eiríkur Björn Björgvinsson og Halla Steinólfsdóttir, sem eru aðalfulltrúar í nefndinni, tóku þátt í Chios fundinum, ásamt Ísólfi Gylfa Pálmason, sem tók þátt í fjarveru Aldísar Hafsteinsdóttur. Forstöðumaður Brussel-skrifstofu tók einnig þátt í fundinum.

Hin nýi ítalski formaður CEMR, Stefano Bonaccini, forseti gríska sveitarfélagasambandsins, Georgios Patoulis og borgarstjóri Chios, Manolis Vournous, buðu fundargesti velkomna. Fórnarlamba hryðjuverka var minnst með mínútu þögn. Hófust síðan umræður um meginviðfangsefni fundarins, málefni flóttafólks og innflytjenda.

Manolis sagði frá erfiðri stöðu í Chios, en eyjan, sem er skammt undan ströndum Tyrklands, annast 3000 flóttamenn án viðunandi stuðnings frá ríkisvaldinu eða ESB. Af þeim 3000 sem dveljast í flóttamannabúðum í útjaðri Chiosborgar er aðeins viðunandi þjónusta í boði fyrir um 800 og öll málsmeðferð tekur óratíma. Fjöldi annarra sveitarfélaga á Grikklandi og Ítalíu glímir við sama vanda. Þrátt fyrir umdeilt samkomulag ESB og Tyrklands sem ætlað er að stemma stigu við komu flóttafólks eftir svokallaðri Balkanleið og áætlunum ESB um flutning og dreifingu flóttafólks um álfuna þá er enn langt í land. Af þeim um 180.000 manns sem til stóð að flytja norðar til að létta álagi af Ítalíu og Grikklandi þá hefur aðeins rúmlega 30.000 verið fundinn staður. Þúsundir manna hafa drukknað í Miðjarðarhafinu og samkomulagið við Tyrkland gerir það að verkum að fólk fer nú nýja, hættulegri sjóleið þar sem björgunaraðgerðir eru í lágmarki.

Evrópusamtök sveitarfélaga hafa samið stefnumótunarskjal um framtíð Evrópu og Evrópusamstarfsins  en forstöðumaður Brussel-skrifstofu sambandsins tók þátt í samningu textans. Fjörugar umræður urðu um skjalið og var það samþykkt með breytingum. Til stendur að gefa út bók um sama efni. 

Fundurinn ályktaði um framtíð samheldnistefnu ESB og Europe for Citizens áætlunina, félagsmálaáætlun ESB og áætlun ESB um jafnvægi atvinnu og fjölskyldulífs.

Fundurinn samþykkti einnig yfirlýsingu um loftslagsmál og COP21, sem andsvar við ákvörðun forseta Bandaríkjanna að draga sig út úr Parísarsamkomulaginu. Sveitarfélög eru hvött til að halda áfram baráttu gegn loftslagsbreytingum og ná markmiðum um kolefnishlutleysi árið 2050.

Öflugur jarðskjálfti, 6.3 á Richter, setti fundahöld úr skorðum en ársreikningur og fjárhagsáætlun voru þó samþykkt og framgangur starfsáætlunar síðasta árs ræddur.

Nánar um fundinn á heimasíðu CEMR

CEMR-Chios