14. mar. 2017

Framtíð ESB og Evrópu viðfangsefni á fundi framkvæmdastjóra evrópskra sveitarfélagasambanda í Nantes

Dagana 13.-14. mars hittust framkvæmdastjórar evrópska sveitarfélagasambanda í Nantes undir merkjum Evrópusamtaka sveitarfélagasambanda (CEMR). Guðrún D. Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Brusselskrifstofu, sat fundinn fyrir Samband íslenskra sveitarfélaga.

Fyrir utan hefðbundin stjórnarstörf fjölluðu framkvæmdastjórarnir m.a. um framtíð Evrópu og Evrópusambandsins. CEMR vinnur nú að ályktun um þetta efni en forstöðumaður Brusselskrifstofu situr í vinnuhóp un efnið.  

CEMR fundur í NantesÁ fundinum flutti Jean-Marc Ferry, deildarforseti heimspekideildar Nantes-háskóla erindi um framtíð Evrópu. Hann sagði kannanir sýna að ungt fólk sé íhaldssamara en fyrri kynslóðir sem e.t.v. ráðist af því að það hefur áhyggjur af efnahag sínum og framtíðinni. Þetta geri það að einangrunarsinnum sem grafi undan trúnni á Evrópusamstarfið. Prófessorinn sagði nauðsynlegt að endurskoða tengsl efnahagskerfisins, félagslegra gilda og sjálfsbærrar þróunar til að endurvekja trúna á Evrópusamvinnuna. Menningarsamstarf, menntaskipti og tungumálanám gegni mikilvægu hlutverki til að styrkja tengsl og samheldni í Evrópu en einnig sé nauðsynlegt að efla hið evrópska velferðarsamfélag. Fleiri fjölluðu um tengsl fátæktar og misskiptingar og uppgangs lýðskrumara og þjóðernispopúlista í álfunni. Útganga Breta úr sambandinu var rædd en einnig möguleg áhrif þess ef Evrópusambandsandstæðingar og þjóðernissinnar komast til áhrifa í kosningunum í Hollandi og Frakklandi. Lýðræðishalli í ESB var ræddur og skortur á upplýsingum um það sem vel er gert í sambandinu og sú tilhneiging stjórnmálamanna að eigna sér það sem vel er gert en kenna ESB ómaklega um allt sem miður fer. Erfitt sé að „selja“ ESB.

Í umræðunum var lögð áhersla á að framtíð álfunnar og sambansins væru nátengd. Fjallað var um hvítbók framkvæmdastjórnar ESB um framtíð sambandsins sem birt var í byrjun mars þar sem útlistaðar eru fimm ólíkar sviðsmyndir um hvernig Evrópusamstarfið gæti þróast. Ekki stendur til að kjósa um valkosti heldur er markmiðið að skapa umræðu og í haust mun framkvæmdastjórnin kynna frekari hugmyndir. Eftirfarandi sviðsmyndir voru kynntar:

  • Fastir liðir eins og venjulega – Aðeins smávægilegar breytingar á sambandinu í kjölfar útgöngu Bretlands.
  • Innri markaðurinn einn og sér – Áhersla lögð á að styrkja fjórfrelsið en samstarf á öðrum sviðum minnkað, s.s. á sviði innflytjenda- og umhverfismála.
  • Ríki sem vilja nánara samstarf geri meira saman – Aðildarríki sem það hugnast auka samstarf á ýmsum sviðum, til dæmis á sviði vinnumarkaðsmála og löggæslu.
  • Skilvirkara starf en á færri sviðum – Áhersla á náið samstarf þegar kemur að viðskiptum, öryggis- og varnarmálum, innflytjendamálum en aðrir málaflokkar – til að mynda lýðheilsa, neytendavernd, umhverfis- og vinnumarkaðsmál – verði á valdi aðildarríkjanna.
  • Nánara samstarf á fjölda sviða – Til að mynda með því að setja á fót varnarbandalag, auka miðstýringu í flóttamannamálum og að sambandið taki upp eigin skattheimtu.

Tillögur um aukna samvinnu og dýpri samruna hafa mætt talsverðri andstöðu Austur-Evrópuríkja, svo sem Póllands og Ungverjalands, sem óttast að verða undir í Evrópusamstarfinu en Frakkar, Þjóðverjar, Spánverjar og Ítalir þrýsta á um að aðildarríkjum verði boðið upp á að ákveða sjálf að hve miklu leyti og á hvaða hraða þau taki þátt í Evrópusamstarfinu.

Á fundinum var einnig fjallað um nánara samstarf Evrópusamtaka sveitarfélaga við Sveitarstjórnarþingið í Strassborg og við Svæðanefnd ESB.