11. apr. 2019

Evrópusku sjálfbærniverðalaunin 2019

Evrópusambandið kynnti nýlega handahafa sjálfbærniverðlauna ársins 2019. Á meðal þeirra voru Álandseyjar og reyndist þetta finnska sjálfstjórnarsvæði eini norræni verðlaunahafinn í ár. Þetta er jafnframt í fyrsta sinn sem afhending Evrópsku sjálfbærniverðlaunin fer fram með hliðsjón af  heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.

Álandseyjar hlutu viðurkenninguna eftirsóttu í flokki opinberra stjórneininga með 100 þúsund íbúa, en alls eru verðlaunin veitt í sjö flokkum.

Álandseyjar voru tilefndar fyrir þróunar- og sjálfbærniverkefnið Allir geta blómstrað í eyjasamfélagi lífs og friðar. Unnið hefur verið að verkefninu frá árinu 2016, þegar því var hrundið af stað af bärkraft.ax, samstarfsvettvangi eða tengslaneti, sem stór hluti álenska samfélagsins á aðild að, ýmist sem einstaklingar eða fulltrúar fyrirtækja, félagasamtaka og stofnana. Samstarfið hvílir á þremur meginstoðum eða sameiginlegri sýn, forgangsmarkmiðum 2030 og mögulegum árangursvísum vegna eftirfylgni við framkvæmd markmiðanna. 

Við verðlaunaafhendinguna þakkaði Micke Larsson, sjálfbærnistjóri verkefnisins og framkvæmdaráðs þess, öllum þeim sem komið hefðu að því að gera þetta umfangsmikla samstarfsverkefni að veruleika. Verðlaunin séu til marks um það að Allir geta blómstrað eigi gilt erindi langt út fyrir strendur Álandseyja. 

Þá sagði Katrin Sjögren, formaður framkvæmdaráðsins, við þetta tækifæri að verkefnið hefði  sýnt heimamönnum fram á hagnýtt og áþreifanlegt gildi sjálfbærnimarkmiða. Um afar heilbrigða nálgun á stefnumótun, stefnuframkvæmd og árangursmat væri að ræða fyrir samfélagið í heild.