Þróun rekstrar grunnskóla frá 1996 til 2022

Þróun rekstrar grunnskóla frá því að þeir færðust frá ríki til sveitarfélaga frá 1996 til fram til ársins 2022 er gerð skil í nýrri skýrslu.

Frá málþinginu sem haldið var í lok október sl. Á myndinni eru málþingsstjórarnir Guðmundur Gunnarsson og Þorbjörg Þorvaldsdóttir. Í pallborði eru Þórður Kristjánsson, Klara Eiríka Finnbogadóttir og Arnar Haraldsson.

Þar eru dregnar saman niðurstöður greiningarvinnu sem kynnt var á Reynslunni ríkari – málþingi um skólamál sem haldið var í lok október sl.

Í skýrslunni er farið yfir reynsluna og lærdóm af flutningnum með því að rýna í gögn um ýmsa þætti í skólastarfi grunnskóla á tímabilinu til að greina þróunina. Lagðar eru fram tillögur sem nú eru til skoðunar hjá menntayfirvöldum.

Greiningarvinnan var unnin í tengslum við samstarfsverkefni ríkis og sveitarfélaga í tilefni þess að aldarfjórðungur var liðinn frá flutningi á rekstri grunnskóla til sveitarfélaga árið 1996. Efnið verður nýtt m.a. til hagnýtingar við innleiðingu laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, menntastefnu til ársins 2030 og aðgerða í byggðaáætlun er lúta að menntun og fræðslu. Rýnt var í þróun skólaþjónustu sl. 25 ár til að greina hlutverk og skipulag skólaþjónustu í innleiðingu laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna og menntastefnu 2030.

Í greiningarvinnunni var einnig horft til útgáfu námsgagna og fyrirkomulags starfsþróunar kennara og skólastjórnenda grunnskóla frá 1996 til 2021. Þær niðurstöður ásamt ýmsum tillögum til úrbóta eru dregnar saman í skýrslunni: 25 ár frá yfirfærslu grunnskólans til sveitarfélaga.