Þörf á samstilltum aðgerðum til að koma í veg fyrir dauða búðanna eftir Covid

Verslanir í fámennum byggðarlögum hafa lengi átt erfitt uppdráttar en eftir Covid-lokanir glíma verslanir í stærri bæjum við sama rekstrarvanda, einkum vegna þess að fólk hefur snúið sér æ meir að því að versla á netinu.

Covid-lokanirnar hafa líka varpað ljósi á hversu mismunandi þjónustueiningar eru háðar hver annarri, svo sem búðir, kaffihús, veitingahús, menningarstofnanir, uppákomur og viðburðir.

Að mati danska sveitarfélagasambandsins er ekki lengur hægt að afgreiða þessa þróun sem staðbundið vandamál. Verslanir í stærstu borgum Danmerkur, eins og Kaupmannahöfn og Árósir, eru líka í hættu eftir Covid. Svörustu spár gefa til kynna að þrír af hverjum fjórum bæjum í Danmörku munu tapa úrvali verslana fyrir 2030 ef helmingur af neyslu Dana flyst yfir á netið.

Nauðsynlegt að grípa til aðgerða

Það er ekki raunhæft að gera sér vonir um að allar búðir muni lifa af en það er nauðsynlegt að grípa til aðgerða til að tryggja að það verði áfram til staðar búðir til að það sé líf í bæjunum. Það er forsenda þess að sveitarfélög geti mótað stefnu um aðlaðandi miðbæjarkjarna og íbúðasvæði og uppbyggingu ferðaþjónustu og annars atvinnureksturs.

Danska sambandið telur þörf á markvissum og samstilltum aðgerðum á landsvísu og fleiri verði að koma að málum heldur en sveitarfélög, þ. á m. ríkið. Verslanir í nærumhverfinu séu miklu meira en bara verslanir. Þær skipta miklu máli þegar fólk og fyrirtæki ákveða að koma sér fyrir á ákveðnum stað og eru mikilvægur þáttur í staðarímynd og menningu. Danska sambandið hefur í bæklingi, sem er aðgengilegur hér að neðan, sett fram tillögur um víðtækar samstarfsaðgerðir til að stemma stigu við dauða búðanna í dönskum bæjum. Ríki, sveitarfélög, fjárfestar, fasteignasalar, rekstaraðilar, menningarstofnanir og jafnvel fjölmiðlar þurfi að leggjast á eitt til að halda dönskum bæjum lífvænlegum. Það telur svo brýnt að grípa til aðgerða að ríkið þurfi setja lög til að auðvelda stofnun formlegs samstarfs um ”Business Improvement Districts (BID)” sem góð reynsla er af víða um lönd. Í því felst m.a. að ef meirihlutinn kemur sér saman um aðgerðir eru bæði einkaaðilar og opinberir skuldbundnir til að vinna saman til að auka vöxt og viðhalda lífvænlegum bæjum. Reynsla hafi sýnt að án löggjafar sé svona samstarf mun brothættara, meira krefjandi og minni líkur á að það standi til lengri tíma.

Tækifæri felast í stafrænu byltingunni

Annað sem bent er á bæklingnum er hversu mikilvægt það er að tryggja að búðaeigendur og aðrir sem reka þjónustu í bæjunum hafi forsendur til að nýta sér þau tækifæri sem felast í stafrænu umbyltingunni og nýjum viðskiptaháttum. Hafi til að mynda þekkingu á markaðssetningu á netinu, geti boðið upp á netverslun samhliða hefðbundnum verslunarrekstri og þróað ný og hagkvæmari rekstrarmódel, s.s. með auknum samrekstri. Slíkar rekstrarumbreytingar séu þó mikil áskorun fyrir geira sem er laskaður eftir Covid-lokanir.

Í bæklingnum eru settar fram tillögur og ráðleggingar undir fjórum efnisheitum:

  1. Endurreisn staðbundinnar verslunar eftir Covid
  2. Meira samstarf einkaaðila og hins opinbera
  3. Aðlögun að netverslun og nýjum viðsskiptaháttum
  4. Áhrif Covid á skipulagsmál sveitarfélaga og hvernig skipulagslög og -reglur þurfa að styðja við verslun og þjónustu í bæjunum.

Genstart handelsbyerne, bæredygtige byer for fremtiden