07. apr. 2020

Þetta líður hjá

Aldis-vor-2018Fáum datt til hugar, í byrjun þessa árs, að atburðir myndu þróast með þeim hætti sem nú hefur orðið að veruleika. Ef einhver hefði þá farið að lýsa því ástandi sem nú ríkir í samfélaginu hefðum við talið viðkomandi galinn, á góðum degi! Engin völva setti fram spádóm sem þennan í áramótablöðunum, enda hefðu hann sjálfsagt ekki fengist birtur. En nú er raunveruleiki okkar sá að við megum ekki hitta okkar nánustu. Við förum varla út úr húsi, margir vinna heima, aðrir á tómlegum vinnustöðum. Það eru engir tónleikar, engar leiksýningar, engin mannamót. Þúsundir eru að missa vinnuna, svo til engir erlendir ferðamenn eru á landinu og veikin hefur tekið sinn toll. Það er í raun fátt sem gefur tilefni til bjartsýni þessa dagana. Meira að segja veðurguðirnir taka upp á því að loka þjóðina inni með hamslausu óveðri. Það þarf nokkuð góða trú á almættið og allt það góða í veröldinni til að halda í gleði og bjartsýni á tímum sem þessum.

Því er það með djúpu þakklæti og aðdáun sem við enn og aftur fylgjumst með íbúum þessa lands takast á við þau verkefni sem fólki hafa nú verið falin. Þar hafa sveitarstjórnarmenn skipað sér í forystu. Til þeirra er horft hringinn í kringum landið, alls staðar þar sem þörf er á styrkri stjórn og fumlausum viðbrögðum. Með góðum stuðningi og kröftugri upplýsingagjöf frá starfsmönnum Sambands íslenskra sveitarfélaga er sveitarstjórnarmönnum gert kleift að bregðast við aðstæðum með samræmdum og ábyrgum hætti og það hefur svo sannarlega verið gert. Ég er ákaflega stolt af sveitarstjórnarmönnum, stjórnendum og starfsmönnum sveitarfélaga sem í sameiningu tryggja að íbúar hvers sveitarfélags geti notið bestu mögulegu þjónustu á þessum sérkennilegu tímum og að reynt sé eftir fremst megni að milda það högg sem atvinnulíf og íbúar verða nú fyrir.
Það er ljóst að fram undan eru krefjandi vikur. Það er jafn ljóst að fram undan er vor, sumar og betri tímar. Við vitum að þessar aðstæður eru ekki komnar til að vera og þá mun landið okkar aftur draga til sín ferðamenn og gesti því hér eru enn til staðar þau atriði sem hingað hafa laðað að sér gesti. Upplýst og öflug þjóð, frumkvæði og metnaður einstaklinganna en líka fjöllin, jöklarnir, sandarnir, fossarnir og hverirnir, allt er þetta hér enn þá og verður áfram. Þessir seglar sem laðað hafa til sín ferðamenn og sífellt fleiri ár frá ári. Því þurfum við áfram að huga að framtíðinni, hugsa stórt, framkvæma og vinna í haginn fyrir komandi tíma – og muna að þetta líður hjá!

Með óskum um ánægjulega páska og enn betra vor.

Aldís Hafsteinsdóttir
Formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga