Þekkir þú birtingarmyndir og afleiðingar stafræns ofbeldis?

Sexan er stuttmyndasamkeppni fyrir nemendur í 7. bekk í grunnskólum landsins, með það að markmiði að fræða þau um mörk og samþykki, en einnig um tilurð, birtingarmyndir og afleiðingar stafræns ofbeldis, þ.m.t. um slagsmál ungmenna, tælingu og nektarmyndir.

Samkvæmt niðurstöðum rannsóknar Fjölmiðlanefndar um nektarmyndir á meðal grunnskólabarna kemur fram að 51% stúlkna og 22% stráka hafa verið beðin um nektarmynd.

Fyrirkomulag Sexunnar er einfalt. Þátttakendur fá fræðslu og tækifæri til að búa til og skila inn tilbúinni stuttmynd (hámark 3 mínútur) á tímabilinu 10.-31. janúar 2023. Viðfangsefni keppninnar eru fjórar birtingarmyndir stafræns ofbeldis: samþykki, nektarmynd, tæling eða slagsmál ungmenna.

Þátttakendur hafa frjálsar hendur með handritagerð, framkvæmd og eftirvinnslu. Hver skóli má senda að hámarki þrjár myndir í keppnina en dómnefnd skipuð fulltrúum ungmennaráðs, RÚV, MMS og kvikmyndagerðar velur svo þrjár bestu stuttmyndirnar sem verða sýndar á vef UngRÚV í viku sex, kynfræðsluvikunni 6.-10. febrúar nk.

Sexan stuttmyndakeppni (112.is)