Það þarf að gefa upp á nýtt

Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, ávarpaði Landsþing sambandsins sem haldið er í Hofi á Akureyri í upphafi fundar í morgun.

Heiða Björg Hilmisdóttir formaður stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga ávarpar XXXVII. landsþing.

Í ræðu sinni kvaðst hún vera full auðmýktar yfir því trausti sem henni var sýnt er hún var kjörin formaður sambandsins og hún hlakkar til þess að taka til starfa. Eitt brýnasta verkefni sveitarstjórna á komandi kjörtímabili eru tekjustofnar þeirra þar sem þeir standa ekki lengur undir þeim verkefnum sem sveitarfélögum ber að sinna en á sama tíma kalla íbúar i mörgum tilfellum eftir meiri þjónustu. 

Vanfjármögnun í málaflokki fatlaðs fólks, hjúkrunarheimila og í málefnum barna með fjölþættan vanda er grafalvarleg og þannig er ekki hægt að halda áfram. Drög að skýrslu tekjustofnanefndar er komin í Samráðsgátt stjórnvalda. Þar má finna tillögur sambandsins og sveitarstjórnir þurfa að taka afstöðu til þeirra. 

Það er ljóst að það þarf einfaldlega að gefa upp á nýtt og það verður eitt helsta verkefni þessa kjörtímabils. Það er mikilvægt að samstarf ríkis og sveitarfélaga sé traust og með skýrum leikreglum, þarna þurfum við að bakka og ná betra samtali og ég er sannarlega tilbúin í það fyrir okkar hönd. Þessi endalausa umræða um hvað er á ábyrgð hvers og hver á að borga hvað er nauðsynleg en ef hún leiðir ekki til niðurstöðu -  er hún niðurbrjótandi. Hamlar framförum sem við þurfum svo nauðsynlega á að halda.

Heiða ræddi einnig um mikilvægi þess að sveitarstjórnarfólk gangi saman í takt og að hún upplifi mikið ákall eftir auknu samtali og samráði. Það var mikill samhljómur meðal þeirra sem hún ræddi við í aðdraganda formannskjörs að það þurfi að styrkja sveitarstjórnarstigið, framtíðarsýn þarf að vera skýr og bæta þurfi skilvirkni. Í því sambandi hefur verið rætt um fjölgun verkefna eða sameiningar sveitarfélaga. Um þetta eru skiptar skoðanir.

Mín skoðun er sú að það sé fullreynt að sambandið beiti sér fyrir því að lög verð sett um lágmarksíbúafjölda sveitarfélaga. Við erum hér á vettvangi umræðna og mér finnst mikilvægt að öll sveitarfélög, stór og smá, geti upplifað Samband íslenskra sveitarfélaga sem sitt samband. 

Loks ræddi Heiða um kjör sveitarstjórnarfólks og nefndi að árið 2021 var gerð könnun meðal sveitarstjórnarfólks sem sýndi svart á hvítu hve mikið áreiti, neikvætt umtal og jafnvel ofbeldi fylgir því að starfa í sveitarstjórnarfólks. Yfir helmingur kjörinna fulltrúa sögðust hafa orðið fyrir áreiti eða neikvæðu umtali vegna starfa sinna fyrir sveitarfélagið. 

Það er hreinlega skylda okkar kjörinnar fulltrúa að við komum okkur saman um hvert skal stefna og skiptum með okkur verkum og fjármagni eftir því hvað er best fyrir íslenskt samfélag. Að lögum og markmiðum fylgi aðgerðir og fjármögnun þeirra sé ljós.