Það er morgunljóst að slagkraftur sveitarstjórnarstigsins þarf að aukast

Aldís Hafsteinsdóttir, formaður stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, setti XXXIV. landsþing sambandsins í morgun.

Aldís Hafsteinsdóttir, formaður stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, setti XXXIV. landsþing sambandsins í morgun. Í upphafi ræðu sinnar minnti hún á að í stefnumótun sambandsins sem fram fór á landsþingi sambandsins 2018 var samþykkt að sambandið styddi við stækkun og eflingu sveitarfélaga, en jafnframt var ákveðið að stefnumótandi ákvarðanir í þeim efnum yrðu ekki teknar nema með aðkomu landsþings. Þess vegna væri boðað til landsþings hér í dag.

Komið að ögurstund

Ég veit að skiptar skoðanir verða um tillöguna hér á þinginu, en ég tel að nú sé komið að þeirri ögurstund að við verðum að taka skýra afstöðu. Viljum við styrkja og efla sveitarstjórnarsigið eða ekki?

Aldís minnti á að í tillögu ráðherra væru sett fram tvö meginmarkmið. Hið fyrra lýtur að sjálfbærni sveitarfélaga og lýðræðislegri starfsemi þeirra, en hið síðara að sjálfstjórn og ábyrgð sveitarfélaga. Samhliða væri lögð fram ítarleg aðgerðaráætlun til næstu fimm ára með 11 skilgreindum aðgerðum sem tryggja eiga framgang markmiða áætlunarinnar.

Ungt fólk horfir ekki á sveitarfélagamörk

Aldís sagði að áhrifin af tillögu um lágmarksíbúafjölda sveitarfélaga, sem hér er til umræðu, yrði að sveitarfélögum myndi fækka um allt að 14 frá árinu 2022, en allt að 40 frá og með árinu 2026. Fjöldi sveitarfélaga gæti því farið niður í um 30.

Fram til þessa hafa stórtækar tillögur um breytingar á sveitarfélagaskipan flestar strandað á því að tillögur hafa ávallt verið bornar undir atkvæði íbúa. Erfitt hefur reynst að ná um það samstöðu meðal íbúa að skynsamlegt sé að sameinast og fyrir því geta legið margar ástæður, t.d. misjöfn fjárhagsstaða sveitarfélaga, áhyggjur af því að skólahald og önnur þjónusta muni breytast, tilfinningarnar eru ríkar í umræðunni þegar kemur að sameiningum og það er alveg skiljanlegt!

Aldís sagði að sveitarstjórnarmenn þyrftu að sýna ábyrgð, horfa til framtíðar og hugsa um það hvað börnin okkar og barnabörn myndu vilja. „Þau vilja góða þjónustu og blómlegt líf í byggðunum. Þau horfa ekki á sveitarfélagamörk og munu seint skilja, þegar fram líða stundir, hvers vegna tækifærin voru ekki gripin þegar enn var möguleiki til að snúa við þróun sem að öðrum kosti er óumflýjanleg.“

Aldís sagði að fjórða iðnbyltingin gæfi möguleika og tækifæri fyrir sveitarfélög á landsbyggðinni. Ný störf geta skapast, nýjungar og tækifæri í þjónustu, í tengslum við atvinnu, menntun og fleira. Til að geta gripið þessa bolta er nauðsynlegt að efla og styrkja sveitarfélög á landsbyggðinni. Tilgangurinn er að bæta þjónustu, gera svæðin eftirsóknarverð og hæf til þess að takast á við það mikilvæga verkefni að jafna búsetuskilyrði landsmanna.

Í lok ræðu sinnar minnti Aldís á þá miklu áskorun sem er fólgin í því að halda úti góðri þjónustu við íbúa í víðfeðmu og strjálbýlu landi.

Við viljum að sem flestir geti búið við svipuð lífsgæði og aðgang að þjónustu, og við viljum, trúi ég öll, að landsbyggðin verði eftirsóknarverð til búsetu. Til þess að það megi verða þurfum við að geta stigið skref í átt til breytinga. Það er morgunljóst að slagkraftur sveitarstjórnarstigsins þarf að aukast. Sveitarfélögin verða að eflast vítt og breitt um landið, til hagsbóta fyrir íbúana, byggðirnar og landið sem heild.