Talsamband við sveitarfélögin að komast á að nýju

„Það er rétt að það hefur stundum andað köldu milli ríkis og sveitarfélaga út af einstaka málum,“ sagði Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra m.a. í ávarpi sínu á fjármálraráðstefnunni í morgun

„Það er rétt að það hefur stundum andað köldu milli ríkis og sveitarfélaga út af einstaka málum. Þrátt fyrir það hafa orðið framfarir og hægt hefur verið að leysa úr mjög stórum málum eins og lífeyrisskuldbindingum sveitarfélaga sem ríkið yfirtók að stórum hluta,“ sagði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra í ávarpi sínu á Fjármálaráðstefnu sveitarfélaga í morgun. Með þessu vísaði ráðherra til ummæla formanns sambandsins sem gagnrýndi samráðsleysi við sveitarfélögin þegar nýr urðunarskattur var boðaður. „Ef urðunarmálið er stærsta vandamálið sem við blasir í samskiptum ríkis og sveitarfélaga þá höfum við náð góðum árangri. Urðunaragjaldið snýst fyrst og fremst um að draga úr urðun en er ekki hugsað sem sérstakur tekjustofn,“ sagði Bjarni. Hann sagði að eftir að nokkur uppstytta hefði orðið í samskiptum ríkisins og sveitarfélaganna fyrr á þessu ári vonaðist hann til þess að talsamband væri að komast á að nýju.

Í svari við fyrirspurn úr sal eftir ávarp sitt sagði Bjarni að það væri ekki gert ráð fyrir að skatturinn rynni til sveitarfélaganna sem væru sá aðili sem ætti að leiða breytinguna yfir í minni urðun. Hins vegar yrði hlustað á athugasemdir. „Ef þetta frumvarp leiðir til þess að eitthvað fer að gerast í urðunarmálum þá hefur árangri verið náð. Það hefur of lítið gerst of lengi,“ sagði Bjarni.

Fjármálaráðherra fór í ávarpi sínu yfir þann árangur sem náðst hefði í efnahagsmálum á liðnum árum og sagði útgjöld ríkisins í sögulegu samhengi eðlileg en í alþjóðlegum samanburði nokkuð há. Hann sagði opinbera fjárfestingu hafa verið of litla á undanförnum árum. Fjárfestingarátak í samgönguinnviðum væri nauðsynlegt vegna þess hve lítið hafi verið gert á síðustu árum og það væri rétt tímasetning að ráðast í slíkt núna þegar hagkerfið væri að kólna. Bjarni fjallaði um áherslu á stafræn samskipti sem hann segir að verði meginsamskipti við hið opinbera frá og með næsta ári. Kannski næðist ekki að koma þessu að fullu til framkvæmda á einu ári en meirihluta samskiptanna ætti að vera hægt að koma inn á stafrænar leiðir á næsta ári.

Aðspurður hvernig ríkið gæti staðið sig betur í að færa störf til landsbyggðarinnar sagði fjármálaráðherra að með stafrænum tengingum væri þetta auðveldað og í raun ekki lengur fyrirstaða að hrinda þessu í framkvæmd. Of mikið hefði borið á því að ákvarðanir og hugmyndir um slíkar tilfærslur kæmu fram í ráðuneytum á meðan kerfið sjálft vissi best hvar hægt væru að bjóða upp á störf án staðsetningar. Hann sagðist nýlega hafa átt viðræður við stjórnendur og forstöðumenn ríkisstofnana og hefði óskað eftir tillögum frá þeim um hvar þessir möguleikar liggja.

Aðspurður um hvenær sveitarfélögin fái gistináttagjaldið til sín sagði ráðherra að það yrði skoðað í samhengi við önnur samskipti ríkis og sveitarfélaga. Sveitarstjórnarmenn þyrftu fyrst að koma sér saman um hvernig þessi tekjustofn ætti að dreifast innbyrðis. Er sveitarstjórnarstigið tilbúið að taka við þessu, spurði ráðherra.

Aðspurður um jöfnun orkukostnaðar sagði Bjarni að jöfnun dreifingarkostnaðar hefði verið stóraukin. Hann sagði lítinn ágreining um markmiðið sem væri að jafna þennan mun að fullu en til þess þyrfti um einn milljarð króna og þá fjármuni þyrfti að finna.