Tækifæri til að auka samræmi í norrænni byggingarlöggjöf

Í um frumvarpi um Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, sem nú liggur frammi til umsagnar í Samráðsgátt, er lagt til að tvær stofnanir, Íbúðalánasjóður og Mannvirkjastofnun, verði lagðar niður en í þeirra stað muni Húsnæðis- og mannvirkjastofnun annast verkefni beggja stofnana.

Í frumvarpi um Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, sem nú liggur frammi til umsagnar í Samráðsgátt, er lagt til að tvær stofnanir, Íbúðalánasjóður og Mannvirkjastofnun, verði lagðar niður en í þeirra stað muni Húsnæðis- og mannvirkjastofnun annast verkefni beggja stofnana.

Við undirbúning frumvarpsins lýsti sambandið fremur jákvæðri afstöðu til fyrirhugaðrar sameiningar. Fyrirsjáanlegt er að nokkur samlegð getur orðið við sameiningu stofnananna. Sameiningin gefur þó ekki síður væntingar um að við mótun regluverks um byggingarmál verði framvegis horft í ríkara mæli til stefnu stjórnvalda í húsnæðismálum. Þar vega m.a. þungt sjónarmið um þörf fyrir hagkvæmt íbúðarhúsnæði og tækifæri til þess að auka samræmi í norrænni byggingarlöggjöf. Slík samræming myndi m.a. auðvelda innflutning á einingahúsum og sambærilegum lausnum sem aftur ætti að leiða til lækkunar íbúðaverðs hér á landi.

Staða brunavarna

Við undirbúning frumvarpsins lýsti sambandið þeirri afstöðu að mikilvægt væri að brunavarnir, sem Mannvirkjastofnun sinnir lögum samkvæmt, verði ekki afgangsstærð í rekstri stofnunarinnar. Ekki kemur skýrt fram í frumvarpinu eða skýringum við það hvort fyrirhugað sé að brunavarnahlutinn verði sjálfstæð rekstrareining innan stofnunarinnar. Við frekari vinnslu málsins leggur sambandið áherslu á að skýrari sýn verði kynnt um þetta atriði. Leggur sambandið áherslu á að náið samráð verði við sveitarfélög og slökkviliðsstjóra um framboð á fræðslu um brunavarnir og stefnumótun í brunavörnum. Eins og ráðuneytinu á að vera kunnugt er staða brunavarna hér á landi afar misjöfn og veruleg þörf á úrbótum t.d. með bættri þjálfun og búnaði slökkviliða. Á sama tíma standa slökkviliðin frammi fyrir nýjum áhættum, s.s. vegna gróðurelda og fjölgunar ferðamanna, og auknum kröfum í löggjöf.

Sambandið fái sæti í stjórn stofnunarinnar

Í 4. gr. frv. segir að með yfirstjórn Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar fari fimm manna stjórn sem ráðherra skipar til fimm ára í senn. Í ljósi þess hve starfsemi stofnunarinnar tengist sveitarfélögum og verkefnum þeirra leggur sambandið áherslu á að í frumvarpinu verði kveðið á um rétt Sambands íslenskra sveitarfélaga til þess að tilnefna að lágmarki einn stjórnarmann. Mjög gott samstarf hefur almennt verið á milli þeirra stofnana sem nú er fyrirhugað að sameina og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Ekki er ástæða til að óttast sérstaklega að breyting verði þar á við sameininguna. Að áliti sambandsins kann engu að síður að vera tilefni til þess að kveða skýrar á um skyldu stofnunarinnar til samráðs á þeim fagsviðum sem undir hana heyra, s.s. með starfrækslu fagráða eða samráðsvettvangs með aðkomu helstu haghafa.