Sveitarstjórnum og kjörnum fulltrúum fækkar

Nýkjörnar sveitarstjórnir munu um land allt taka til starfa 15 dögum eftir kjördag og við það munu samtals 502 fulltrúar taka sæti í þeim 72 sveitarfélögum sem eru við lýði í landinu. Að síðustu sveitarstjórnarkosningum loknum tóku 504 fulltrúar sæti í 74 sveitarfélögum og hefur því bæði kjörnum fulltrúum og sveitarstjórnum fækkað frá því sem var.

Nýkjörnar sveitarstjórnir munu um land allt taka til starfa 15 dögum eftir kjördag og við það munu samtals 502 fulltrúar taka sæti í 72 sveitarfélögum.

Að síðustu sveitarstjórnarkosningum loknum tóku 504 fulltrúar sæti í 74 sveitarfélögum og hefur því bæði kjörnum fulltrúum og sveitarfélögum fækkað frá því sem var.

Við fyrstu sýn kann að koma á óvart að sveitarstjórnarfólki hafi fækkað, þar sem borgarfulltrúum í Reykjavík fjölgaði úr 15 fulltrúum í 23, í nýafstöðnum sveitarstjórnarkosningum.

Á móti þessari fjölgun kemur hins vegar fækkun sveitarfélaga um tvær með sameiningu Sveitarfélaganna Garðs og Sandgerðis annars vegar og Fjarðabyggðar og Breiðdalshrepps hins vegar.

Að teknu tilliti til þessara sameininga er heildarfjöldi sveitarstjórnarfólks í landinu 502 eða tveimur færri en í síðustu kosningum á árinu 2014.

Sá fulltrúi sem á lengsta setu að baki í sveitarstjórn boðar nýkjörna fulltrúa til fyrsta fundar og skal það gert eigi síðar en 15 dögum eftir kosningar. Sá fulltrúi stýrir jafnframt fundi þar til sveitarstjórnin hefur kosið sér oddvita eða forseta, að því er segir í sveitarstjórnarlögum. Fyrsta fund sveitarstjórnar skal boða með a.m.k. fjögurra daga fyrirvara.

Vandi fylgir vegsemd hverri og vissulega er að mörgu að gæta hjá þeim sem hafa verið kjörnir til trúnaðarstarfa í sveitarstjórn. Sambandið hefur því tekið saman vegvísi um réttindi og skyldur kjörinna fulltrúa. Þá heldur sambandið einnig námskeið fyrir nýkjörna fulltrúa í haust og á vetri komanda.