Frumvarp um lækkun kosningaaldurs endurflutt

Samband íslenskra sveitarfélaga hvetur sveitarstjórnir til þess að taka til umfjöllunar beiðni sem þeim hefur borist frá nefndasviði Alþingis, þar sem óskað er eftir umsögnum um frumvarp til laga um breytingar á lögum um kosningar til sveitarstjórna (kosningaaldur) 356. mál. 

Samband íslenskra sveitarfélaga hvetur sveitarstjórnir til þess að taka til umfjöllunar beiðni sem þeim hefur borist frá nefndasviði Alþingis, þar sem óskað er eftir umsögnum um frumvarp til laga um breytingar á lögum um kosningar til sveitarstjórna (kosningaaldur) 356. mál. 

Um er að ræða endurflutt þingmál, sem sambandið ásamt allmörgum sveitarfélögum og ungmennaráðum veitti umsögn um á síðasta löggjafarþingi. Gerði sambandið m.a. alvarlega athugasemd við að til stæði að afgreiða slíka lagabreytingu skömmu fyrir sveitarstjórnarkosningar. 

Rétt er að vekja athygli sveitarstjórna á því, að það frumvarp sem nú er lagt fram er nokkuð breytt og hefur við gerð þess verið tekið tillit til breytinga sem gerðar voru á fyrra frumvarpi í meðförum allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis, sbr. eftirfarandi ummæli úr áliti þingnefndarinnar: 

Samkvæmt lögræðislögum verða einstaklingar sjálfráða og fjárráða við 18 ára aldur og þar með lögráða. Verði frumvarpið óbreytt að lögum munu 16 ára einstaklingar verða kjörgengir í sveitarstjórnarkosningum þótt þeir séu ekki fjárráða. Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um að kjörgengi ætti fremur að fylgja lögræðisaldri, m.a. vegna þess að fulltrúar í sveitarstjórnum taka ákvarðanir sem varða fjárhag sveitarfélaga og ekki eðlilegt að ófjárráða einstaklingar komi að slíkum ákvörðunum. Meiri hlutinn fellst á þessi sjónarmið og leggur til breytingar á frumvarpinu þannig að það verði einungis kosningarrétturinn sem miðast við 16 ára aldur, sbr. ákvæði 2. gr. frumvarpsins.

Við umfjöllun nefndarinnar komu einnig fram ábendingar varðandi 19. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna en þar er kveðið á um að fulltrúar í sveitarstjórnum skuli kjörnir í leynilegum almennum kosningum, annaðhvort bundnum hlutfallskosningum, sbr. a-lið greinarinnar, eða í óbundnum kosningum þar sem kosning er ekki bundin við framboð en allir kjósendur eru í kjöri nema þeir sem eru löglega undanþegnir skyldu til að taka kjöri og hafa fyrir fram skorast undan því, sbr. b-lið greinarinnar. Meiri hlutinn telur nauðsynlegt að kjósendur undir 18 ára aldri verði undanþegnir þessu ákvæði og leggur því til breytingar í þá veru að í stað þess að allir séu í kjöri verði það einungis þeir sem eru kjörgengir, sbr. ákvæði 3. gr. frumvarpsins.

Af hálfu sambandsins er lögð áhersla á að sveitarstjórnarmenn taki afstöðu til málsins. Markmið þess er að umsögn sambandsins um málið endurspegli eins og frekast er unnt umræðu um málið í sveitarstjórnum og í stjórn sambandsins. Málið verður til umfjöllunar á stjórnarfundi 22. febrúar nk. og hefur sambandið óskað eftir framlengingu á umsagnarfresti til mánudagsins 4. mars, til að veita sveitarstjórnum sem best svigrúm til umfjöllunar um málið.

Tengt efni: