Sveitarstjórnarþing Evrópuráðsins samþykkir mannréttindahandbók á 70 ára afmæli Mannréttindasáttmála Evrópu

Þetta er 2. handbók sveitarstjórnarþingsins og fjallar hún um félagsleg mannréttindi, s.s. rétt til heilsu, menntunar, vinnu og húsnæðis. Fyrsta mannréttindahandbókin var gefin út 2018.

Fyrsta handbókin var helguð banni við mismunun, sérstaklega með vísan til stöðu flóttamanna, hælisleitenda, innflytjenda, Róma- og LGBTI fólks.

Á veffundi formanna sendinefnda aðildarlanda 7. desember var samþykkt ályktun um að handbókin feli í sér mikilvægan stuðning við vinnu sveitarstjórna og stjórnsýslu sveitarfélaga að því að innleiða félagsleg réttindi til handa íbúum, þ. á m. í ljósi Covid faraldursins.  Í handbókinni er farið yfir af hverju það er mikilvægt að sveitarfélög og svæði styðji við félagsleg réttindi. Jafnframt er veitt yfirlit yfir helstu alþjóðasamninga sem vernda félagsleg réttindi, hvað felist í félagslegum réttindum og hvernig sveitarfélög geti staðið vörð um þau og eflt. Þá er farið yfir stærstu úrlausnarefnin og gefin fjölmörg dæmi um fyrirmyndarverkefni, þ. á m. frá Reykjavíkurborg.