Sveitarstjórnarþing Evrópuráðsins ályktar um hvernig brúa þurfi bil á milli dreifbýlis og þéttbýlis

Á Sveitarstjórnarþinginu eiga sæti 324 þingfulltrúar sem eru fulltrúar fyrir 150 000 sveitarfélög og svæði í 47 aðildarlöndum Evrópuráðsins og þ. á m. Íslandi.

Undir venjulegum kringumstæðum kemur þingið saman tvisvar á ári í höfuðstöðvum Evrópuráðsins í Strasbourg í Frakklandi en ekki í ár. Þess í stað hafa þingmál verið afgreidd á veffundum sem eingöngu formenn sendinefnda aðildarríkja taka þátt í. Slíkur fundur var haldinn 7. desember sl. og nokkur mál samþykkt sem tilefni er til að koma á framfæri við íslensk sveitarfélög. Þar má fyrst nefna skýrslu um hvernig brúa þurfi bil á milli dreifbýlis og þéttbýlis en þetta bil hefur verið að breikka í öllum Evrópuríkjum samhliða fólksflutningum úr dreifbýli í þéttbýli.  Þessi þróun hefur leitt til aukins ójafnvægis á milli sveitarfélaga eftir staðsetningu þeirra, sérstaklega þegar litið er til fjárhagslegrar stöðu og hvernig þau eru í stakk búin að veita íbúum þjónustu.

Skýrslugjafar telja að þetta bil verði að brúa með auknu formlegu samstarfi og með því að byggja upp gagnkvæman skilning á ólíkum forsendum þéttbýlis og dreifbýlis, sem og viðurkenningu á því að þéttbýlið þarf á dreifbýlinu að halda og öfugt. Þeir telja að svæði sem liggja á jöðrum þéttbýlis og dreifbýlis hafi sérstöku hlutverki að gegna við að þróa samstarfsleiðir á milli þéttbýlis og dreifbýlis. Tilefni sé til að skoða aukið samstarf á milli dreifbýlis- og þéttbýlissveitarfélaga sem nýja tegund af sveitarfélagasamstarfi.

Nánar um samþykktina