Sveitarstjórnarmenn bera saman bækur sínar

Á nýafstöðnu landsþingi sambandsins sem haldið var á Akureyri 26.–28. september síðastliðinn hittust um 200 fulltrúar sveitarfélaga og áttu góða samvinnu um undirbúning að stefnumörkun sambandsins. Einnig var kosin ný stjórn til næstu fjögurra ára. Landsþingið tókst vel og ríkti almenn ánægja og einhugur í hópi sveitarstjórnarmanna.

Á nýafstöðnu landsþingi sambandsins sem haldið var á Akureyri 26.–28. september síðastliðinn hittust um 200 fulltrúar sveitarfélaga og áttu góða samvinnu um undirbúning að stefnumörkun sambandsins. Einnig var kosin ný stjórn til næstu fjögurra ára. Landsþingið tókst vel og ríkti almenn ánægja og einhugur í hópi sveitarstjórnarmanna.

Fjármálaráðstefna sveitarfélaga fer nú í hönd, fjölmennasti viðburður ársins hjá sveitarstjórnarmönnum. Þátttakendur hafa undanfarin ár verið vel yfir 400 talsins og þó hafa færri komist að en vildu. Við sem störfum hjá sambandinu erum bæði stolt og glöð yfir því að svo breiður vettvangur hafi skapast fyrir umræður um sveitarstjórnarmál. Allir eru velkomnir að sækja ráðstefnuna, ekki einungis kjörnir fulltrúar og starfsmenn sveitarfélaga, heldur einnig áhugamenn um sveitarstjórnarmál. Gildir það sérstaklega um þá sem láta sig ýmsa fjármálalega þætti sveitarfélaga varða. Það er ánægjuefni að kona ávarpar í fyrsta sinn fjármálaráðstefnuna sem formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, en Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri í Hveragerði, hlaut kosningu til embættisins á nýafstöðnu landsþingi. Að þessu sinni lýtur meginstef ráðstefnunnar að, verkaskiptingu og samvinnu ríkis og sveitarfélaga og hvernig vinna megi á óskýrri verkaskiptingu og þeim gráu svæðum sem hún leiðir til. Dagskránni lýkur svo á síðari degi ráðstefnunnar með fjórum málstofum sem helgaðar eru hver sínu málefnasviði eða fjármálum, fræðslumálum, velferðarmálum og innviðum og uppbyggingu. Vænta má fjörugra umræðna um þessi mál Í heildina verða flutt 36 erindi og ávörp á ráðstefnunni.

Fjárhagur sveitarfélaga hefur tekið stakkaskiptum á undanförnum árum. Fjölmargt hefur áunnist. Lífeyrismálin hafa verið í brennidepli sem aldrei áður. Uppgjörið við Brú lífeyrissjóð starfsmanna sveitarfélaga var gífurlega viðamikið og tók vissulega á, en framtíðarávinningur þess mun verða verulegur. Uppgjör lífeyrisskuldbindinga hjúkrunarheimila er annað verkefnið sem miklu varðar og lokið er að mestu. Þótt margt hafi áunnist á þessu sviði blasa við verkefni og áskoranir um uppgjör á milli ríkis og sveitarfélaga vegna samrekstrar verkefna.

Eftir þensluskeið síðustu ára og launaskrið, telja hagfræðingar að stíga verði varlega til jarðar í kjaraviðræðum næsta árs. Innstæða verði að vera fyrir umsömdum launahækkunum, svo koma megi í veg fyrir að gamalkunnur verðbólgudraugur komist á kreik með víxlhækkunum verðlags og launa. Óneitanlega er hér um mikla áskorun fyrir allt samfélagið að ræða. Sveitarfélögin gegna mikilvægu hlutverki í þessu efni sem stærsti opinberi vinnuveitandi landsins með 52% af störfum þess opinbera og hyggur kjarasvið sambandsins á fundarferð um landið nú haust til að ræða málin við sveitarstjórnarmenn og undirbúa þær kjaraviðræður sem fara í hönd.

Sveitarstjórnarmönnum og starfsmönnum sveitarfélaga óska ég góðs gengis í störfum sínum, nú sem endranær.

Góðar stundir.