Samband íslenskra sveitarfélaga skilaði í síðustu viku umsögn um drög að stefnu umhverfis- og auðlindaráðherra um meðhöndlun úrgangs til ársins 2032. Stefnan, sem ber heitið Í átt að hringrásarhagkerfi, tekur við af Landsáætlun um meðhöndlun úrgangs 2013–2024 og er það í samræmi við þær breytingar sem gerðar voru á lögum um meðhöndlun úrgangs árið 2014.
Samtal við sveitarfélögin á umsagnartímanum
Gott samtal hefur verið milli umhverfis- og auðlindaráðuneytisins og sambandsins síðustu mánuði við gerð stefnunnar. Sambandið hefur lagt áherslu á mikilvægi þess að til staðar sé skýr stefna um meðhöndlun úrgangs en samkvæmt gildandi lögum um meðhöndlun úrgangs skulu svæðisáætlanir sveitarfélaga um meðhöndlun úrgangs fylgja þeirri stefnu. Sambandið telur farsælt skref að ætlunin er að fylgja stefnunni eftir með stofnun stýrihóps sem fær m.a. það hlutverk að fylgja eftir framkvæmd stefnunnar og beita sér fyrir því að aðgerðum miði áfram.
Sambandið og Umhverfis- og auðlindaráðuneytið héldu þrjá kynningarfundi með sveitarfélögunum um stefnudrögin og fyrirliggjandi frumvarpsdrög að breytingu á lögum vegna innleiðingar hringrásarhagkerfis (mál nr. 11/2021) sem birt voru á samráðsgátt stjórnvalda 15. janúar sl. Sambandið hefur jafnframt skilað umsögn um frumvarpsdrögin, dags. 8. febrúar sl.
Framtíðarsýn og meginmarkmið
Í stefnudrögunum er lögð til framtíðarsýn fyrir málaflokkinn. Meginmarkmið stefnunnar eru tvenn. Annars vegar að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá meðhöndlun úrgangs og vinna að kolefnishlutleysi Íslands. Hins vegar að stuðla að sjálfbærri auðlindanýtingu með því að auka endurvinnslu og aðra endurnýtingu úrgangs, draga úr urðun og hætta urðun lífbrjótanlegs úrgangs.
Í fyrirliggjandi drögum er gerð tillaga að 24 aðgerðum og er stefnt að því að 12 þeirra verði lögfestar á þessu ári í tengslum við áðurnefnd frumvarpsdrög. Hinar tólf aðgerðirnar sem fjallað er um í stefnudrögunum eru m.a. álagning urðunarskatts, bann við urðun lífbrjótanlegs úrgangs, stuðningur við heimajarðgerð og stuðningur við uppbyggingu innviða til meðhöndlunar úrgangs sem samræmast hugmyndum um hringrásarhagkerfi. Jafnframt er í drögunum að finna aðgerðir sem styðja eiga sérstaklega við sveitarfélög við að innleiða bætta úrgangsstjórnun s.s. með gerð handbókar, að auka áreiðanleika upplýsinga um uppruna úrgangs sem fellur til og bæta yfirsýn yfir flæði úrgangsstrauma.
Meginatriði í umsögn sambandsins
Að mati sambandsins bera fyrirliggjandi drög að stefnu um meðhöndlun úrgangs til 2032 þess glöggt merki að vandað hefur verið til verka. Stefnan hefur nokkuð skýran fókus og aðgerðir eru almennt raunhæfar og fjármagnaðar. Nokkrar þeirra styðja við hlutverk sveitarfélaga í úrgangsstjórnun. Framlengd framleiðendaábyrgð er aukin, sem er í samræmi við áherslur sambandsins en sambandið leggur til í sinni umsögn sérstakar aðgerðir til að styrkja framsækið kerfi framleiðendaábyrgðar. Einnig er lögð áhersla á áreiðanlega úrgangstölfræði sem sambandið telur undirstöðu þess að gera betur í meðhöndlun úrgangs á landinu og leggur til í sinni umsögn að skerpt sé enn frekar á hlutverki Umhverfisstofnunar í að halda utan um hana.
Meginmarkmið ráðherra varða loftslagsmál og auðlindanýtingu. Sambandið telur að þær áherslur nái ekki að teikna upp með fullnægjandi hætti þá heildarmynd sem meðhöndlun alls úrgangs í anda markmiða hringrásarhagkerfisins kallar á. Svo virðist að stefnan nái ekki að ,,spanna allan úrgangsþríhyrninginn“ að öllu leyti og leggur sambandið til að meginmarkmiðum verði fjölgað um tvö til að skapa betri heildarsýn yfir alla meðhöndlun úrgangs og tryggja sterka umgjörð úrgangsstjórnunar sem hvetur til að markmiðum hringrásarhagkerfisins sé náð.
Sambandið telur í sinni umsögn mikilvægt að auknar kröfur um sérsöfnun og aðrar kröfur sem gætu valdið kostnaðaraukningu haldist í hendur við innleiðingu aukinnar framlengdrar framleiðendaábyrgðar. Að mati sambandsins ætti að nýta svigrúm Evróputilskipana þannig að eingöngu verði gerð krafa um að blönduðum úrgangi og lífúrgangi, að undanskildum garðaúrgangi, verði safnað ,,við húsvegg“ eða innan lóðar eins og segir í fyrrnefndum frumvarpsdrögum. Sambandið hefur einnig haft þá sýn að mikilvægt sé að sérsafna blönduðum úrgangi til jafns við endurvinnsluefni til að rýra ekki gæði endurvinnslustrauma og vegna sóttvarna- og hollustuháttasjónarmiða. Einnig að heimildir og skyldur sveitarfélaga séu skýrar og að ákvarðanir um uppbyggingu starfsemi og fjárfestingar standi ekki og falli með því að undanþágur verði veittar.
Í stefnudrögunum er rætt um breytingar á álagningu gjalds fyrir meðhöndlun úrgangs vegna svokallaðrar ,,Borgaðu þegar þú hendir“ aðferðar við gjaldtöku. Sambandið leggur til að sveitarfélögum verði áfram heimilt að miða álagningu fyrir meðhöndlun úrgangs að hluta til áfram við fast gjald og þau hafi heimildir til að taka tillit til umhverfisáhrifa við ákvörðun gjalds þótt byggt verði að meginstefnu á mengunarbótareglunni sem felst í ,,Borgaðu þegar þú hendir“. Sambandið telur jafnframt að forsenda lögfestingu urðunarskatts sé að tekjur af skattinum renni til sveitarfélaga enda eru það sveitarfélög sem bera kostnað af því að byggja upp innviði til bættrar meðhöndlunar úrgangs.