Sveitarfélögin og kynjajafnrétti, mannréttindi og samfélagsleg þátttaka

Ráðstefna sem Samtök evrópskra sveitarfélagasamtaka, CEMR, heldur fjórða hvert ár um kynjajafnrétti, mannréttindamál og samfélagsþátttöku allra fór nýlega fram í spænsku borginni Bilbao. Þátttakendur voru um 500 talsins, aðallega starfsmenn sveitarfélaga og svæða í Evrópu, kjörnir fulltrúar og fulltrúar frjálsra félagasamtaka. Framlag Íslands var kynning Halldóru Gunnarsdóttur, jafnréttissérfræðings Reykjavíkurborgar, á mannréttindastefnu borgarinnar.

Samtök evrópskra sveitarfélagasamtaka, CEMR (Council of European Municipalities and Regions) heldur fjórða hvert ár ráðstefnu um kynjajafnrétti, mannréttindamál og samfélagslega þátttöku allra. Ráðstefnan fór nú fram í Bilbao á Spáni 11. til 13. júní sl. Þátttakendur voru um 500 talsins, aðallega starfsmenn sveitarfélaga og svæða í Evrópu, kjörnir fulltrúar og fulltrúar frjálsra félagasamtaka.

Framlag Íslands var kynning Halldóru Gunnarsdóttur, jafnréttissérfræðings Reykjavíkurborgar, á mannréttindastefnu borgarinnar, en á ráðstefnunni var í fjölmörgum málstofum rætt um hvernig vinna megi að kynjajafnrétti í evrópskum sveitarfélögum og svæðum, tryggja stöðu og þátttöku minnihlutahópa og virkni íbúa. Jafnframt voru fyrirmyndarverkefni sveitarfélaga kynnt og skipst var á skoðunum og reynslu.

Evrópusáttmáli um jafna stöðu kvenna og karla í sveitarfélögum og svæðum var í brennidepli, ekki síst hvernig gera megi kynjajafnrétti, eins og  sáttmálinn kveður á um, að viðteknum þætti í starfsemi sveitarfélaga. Þýsk, austurrísk og sænsk sveitarfélög eru í fararbroddi hvað það varðar. Alls hafa 1.720 sveitarfélög og svæði í 35 löndum skrifað undir sáttmálann, þar af sex íslensk sveitarfélög.

Í lok ráðstefnunnar var samþykkt sameiginleg yfirlýsing bæjarstjóra, kjörinna fulltrúa á sveitarstjórnarstigi og samtaka þeirra. Minnt er á, að styrkleiki Evrópu felist í þeim fjölbreytileika og margbrotnu sjálfsmynd (multitude expressions of identity) sem mótar samfélögin okkar. Saga Evrópu einkennist af átökum og upplausn og sú þróun hafi knúið fram sameignleg evrópsk gildi sem byggjast á lýðræði, mannréttindum, frelsi og virðingu fyrir lögum og reglum. Eitt mikilvægasta verkefni evrópskra sveitarstjórnarmanna sé að tryggja, að þessi samfélagslegu gildi verði ávallt í heiðri höfð.

 

Kallað er eftir réttlátari skiptingu valda og fjármagns, að dregið verði úr félagslegum ójöfnuði og að íbúum verði gert kleift að taka þátt á jafnræðisgrundvelli í stefnumótun sveitarfélaga og svæða sem miðar að uppbyggingu réttlátara samfélags fyrir alla.  Bent er í þessu sambandi á, að margt hafi áunnist með alþjóðlegri og evrópskri samvinnu og aðgerðum CEMR og aðildarsamtaka þeirra. Enn sé félagslegur ójöfnuður þó staðreynd og það kalli á djarfar aðgerðir.

Í yfirlýsingunni er einnig kallað eftir langtímastefnumótun og aukinni þekkingaruppbyggingu og samvinnu, s.s. á milli stjórnsýslustiga og við frjáls félagasamtök, svo herða megi baráttuna gegn hvers konar mismunun. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins er hvött til að móta aðgerðaráætlun um jafnrétti kynjanna, svo samstilla megi með því móti aðgerðir aðildarríkja og stofnana ESB í jafnréttismálum. Þá er einnig hvatt til samstilltra aðgerða vegna heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um kynjajafnrétti, fjölbreytni og samfélagslega þátttöku allra.

Nálgast má yfirlýsinguna í heild sinni hér að neðan.

Bilbao-2018Íslensku fulltrúarnir á ráðstefnunni voru þær Halla Sigríður Steinólfsdóttir, varaformaður sambandsins og Aldís Hafsteinsdóttir, stjórnarmaður, en þær eru jafnframt fulltrúar sambandsins í stjórnarnefnd CEMR og tóku því einnig þátt í fundi hennar sem haldinn var samhliða ráðstefnunni. Anna Guðrún Björnsdóttir, sviðsstjóri þróunar- og alþjóðasviðs sambandsins, sat einnig fundinn ásamt ráðstefnunni. Myndin hér að ofan er tekin af íslensku fulltrúum á ráðstefnunni; f.v. Halldóra Gunnarsdóttir, Halla Sigríður Steinólfsdóttir, Anna Guðrún Björnsdóttir og Aldís Hafsteinsdóttir).