Glokala Sverige – Agenda 2030 er yfirskrift þriggja ára samstarfs- og fræðsluverkefnis um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna sem SKL, samtök sveitarfélaga og svæða, standa fyrir í samstarfi við Félag Samneinuðu þjóðanna í Svíþjóð. Heimsmarkmiðin hafa áunnið sér sess innan vébanda samtakanna sem hagnýtt tæki til innleiðingar á aðferðum sjálfbærrar þróunar.
Glokala Sverige - Agenda 2030 er yfirskrift þriggja ára samstarfs- og upplýsingaverkefnis um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna, sem SKL, samtök sveitarfélaga og svæða, standa fyrir í samstarfi við Félag Sameinuðu þjóðanna í Svíþjóð.
Könnun SKL sýnir, að heimsmarkmiðin hafa áunnið sér sess innan vébanda samtakanna sem hagnýtt tæki til innleiðingar á aðferðum sjálfbærrar þróunar. Þá er algengt, að sveitarfélög og svæði tvinni heimsmarkmiðin saman við stjórnsýslu, starfsáætlanir eða sjálfbærniverkefni ýmiss konar.
Á meðal þess sem þátttakendum Glokal Sverige-verkefnisins stendur til boða er aðild að staðbundnum fyrirlestrum og vinnustofum, ásamt aðgangi að veffræðslu, kynningarmyndböndum og umræðum, svo að dæmi séu tekin.
Verkefnið tekur við af tilraunaverkefni sem efnt var til árið 2017 í samstarfi við sjö sveitarfélög og svæði. Skráning hefur gengið vonum framar og þykir það jafnframt til marks um þann mikla áhuga sem gert hefur vart við sig í Svíþjóð á heimsmarkmiðunum.
Innleiðing heimsmarkmiðanna er þó mislangt á veg komin. Á sama tíma og sum sveitarfélög og svæði eru komin vel á veg, eru önnur enn að skoða hvernig þau geti sem best staðið að málum.
Vonir eru bundnar við að Glokala Sverige geti orðið til þess að draga úr þessum mun. Að sögn Vesna Jovic, aðstoðarframkvæmdastjóra SKL, er þátttaka úr öllum landshlutum það góð að verkefnið ætti að geta leitt af sér almennar fyrirmyndir fyrir sveitarfélög og svæði vegna innleiðingar heimsmarkmiðanna.
Til gamans má svo nefna, að Glokala er, eins og hugtakið ber svo vel með sér, myndað úr lýsingarorðunum lokal eða staðbundinn og global sem ber í sér alþjóðlega vísun. Lýst er hér með eftir tillögum að sambærilegu nýyrði á íslensku.