Arnar Þór Sævarsson, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga, hélt ávarp á fjármálaráðstefnu sveitarfélaganna sem fór fram á Hilton Reykjavík Nordica í dag.
Í ræðu sinni fór Arnar yfir sveitarfélög á Íslandi og hve mikilvæg þau væru fyrir lýðræðið hér á landi en yfirskrift ávarps Arnars var Sveitarfélög – Hornsteinn lýðræðisins.
Arnar áréttaði að lýðræðishefðin hér á landi væri best varin með rökræðu, hlustun og endurmati en ekki yfirgangi, geðþótta og skoðanahroka og að það væri á ábyrgð sveitarfélaganna sjálfa að sjá til þess að verja þá hefð. Sveitarfélögin væru það stjórnvald sem stæði íbúunum næst og og það stjórnvald sem er í mestu snertingu við daglegt líf íbúa þess.
Á meginlandi Evrópu er það viðurkennt viðhorf að sveitarstjórnir séu einn af hornsteinum lýðræðislegs stjórnarfars að mati Arnars og því er réttur þegnanna til þátttöku í stjórnun opinberra mála ein af þeim lýðræðislegu meginreglum sem séu sameiginlegar öllum lýðræðisríkjum og þar gegna sveitarfélögin lykilhlutverki. Í þróaðri lýðræðisríkjum má ljóst vera að sjálfstjórn sveitarfélaga er álitin afar mikilvæg.
Sveitarfélögin hér á landi þurfa líka að vera móttækileg fyrir breytingum en með þeim fylgir ákveðin óvissa og sagði Arnar að framtíðin væri í raun annað orð yfir óvissu. Mikilvægt er að sveitarfélögin, og fólkið sem vinnur hjá þeim, geti brugðist hratt og við þeim síbreytilegu þörfum og tækifærum sem felast í aukinni tækni. Þannig þurfi kjörnir fulltrúar að vera vakandi og meðvitaðir til að hægt sé að bregðast hratt og örugglega við.
Fjármálaráðstefnan er í beinu streymi hér á vef sambandsins og upptökur frá henni verða aðgengilegar á vefsiðu ráðstefnunnar mánudaginn 25. september.