Samkvæmt minnisblaði Sambands íslenskra sveitarfélaga er söfnun, flutningur og önnur meðhöndlun aukaafurða dýra ekki lögbundið hlutverk sveitarfélaga.
Sambandið hefur haft til umfjöllunar á síðustu mánuðum málefni sem varða ráðstöfun aukaafurða dýra, sem einnig eru þekkt undir heitunum dýraleifar eða dýrahræ. Sveitarfélög þurfa að hafa þessa niðurstöðu til hliðsjónar þegar til umræðu er hvort þau skuli koma að söfnun, flutningi eða annarri meðhöndlun þessa flokks afurða. Hafa þarf að í huga að með því að safna dýraleifum getur ábyrgð á réttri lokameðhöndlun flust yfir á sveitarfélög.
Íslenska ríkið var dæmt fyrir að standa ekki við skuldbindingar sínar samkvæmt EES-samningnum af EFTA dómstólnum þann 29. júlí 2022, vegna þess að ekki var innleidd með réttum hætti reglugerð um aukaafurðir dýra frá Evrópusambandinu. Meginástæða niðurstöðu dómsins er sú að aukaafurðir dýra í áhættuflokki 3, sem falla til við slátrun, séu urðuð á urðunarstöðum eða utan urðunarstaða án tilskilinna leyfa eða fyrri meðhöndlunar.
Í kjölfar dómsins hefur verið veruleg umræða um hvaða aðilar beri ábyrgð á að safna aukaafurðum og hver eigi að sinna annarri meðhöndlun þeirra , bæði meðal sveitarfélaga sem og í fjölmiðlum. Samband íslenskra sveitarfélaga hefur kannað nánar hverjir beri ábyrgð á að uppfylla skyldur varðandi aukaafurðir. Af því tilefni var ritað minnisblað af hálfu sérfræðinga sambandsins þar sem leitast var eftir því að svara eftirtöldum þremur spurningum:
- Hvaða aðili ber ábyrgð á sérstakri söfnun og flutningi aukaafurða dýra (dýrahræja) til frekari meðhöndlunar? Er sveitarfélögum yfir höfuð heimilt að standa að sérstakri söfnun dýrahræja?
- Hvaða aðili ber ábyrgð á að til staðar sé ráðstöfunarleið fyrir dýrahræ?
- Gilda önnur sjónarmið um sóttmengaðan úrgang, s.s. við riðusmit?
Niðurstaða minnisblaðsins er sú að sveitarfélög bera ekki að neinu marki ábyrgð á söfnun, flutningi eða meðhöndlun þessara aukaafurða, hvort sem þær eru sóttmengaðar eða ekki. Íslenska ríkinu ber að koma á kerfi til söfnunar, flutnings og meðhöndlunar þessara afurða, eftir atvikum í samstarfi við framleiðendur.
Sveitarfélögum er þó heimilt að safna, flytja og meðhöndla dýraleifar, en þá eingöngu á þeim grundvelli að um ólögbundið verkefni sveitarfélags sé að ræða, en með því að safna dýraleifum getur ábyrgð á réttri lokameðhöndlun flust yfir á sveitarfélag.
Mikilvægt er að sveitarfélög hafi þessa niðurstöðu til hliðsjónar þegar til umræðu er hvort sveitarfélag skuli koma að söfnun, flutningi eða aðra meðhöndlun þessa flokks afurða.
Hér má finna minnisblað sambandsins. Ef frekari upplýsinga er óskað má hafa samband við sérfræðinga á stjórnsýslusviði sambandsins, samband@samband.is.