Svæðanefnd ESB hvetur ríki Evrópu til að styðja betur við lista- og menningargeirann í álfunni, en ljóst er að sóttvarnaraðgerðir hafa mikil áhrif á afkomu bæði fyrirtækja og einstaklinga sem byggja lífsviðurværi sitt á list og menningu.
Svæðanefnd ESB stóð á dögunum fyrir pallborðsumræðum með framkvæmdastjórn ESB um mikilvægi lista – og menningargeirans í Evrópu og með hvaða hætti megi slá skjaldborg um þennan geira atvinnulífsins.
Í máli Apostolos Tzitzikostas, forseta Svæðanefndar ESB, kom fram að tekjutap lista- og menningargeirans í Evrópu hafi verið 70% árið 2020. Þá sé ljóst að árið 2021 verði einnig þungt í skauti og ekkert lát sé á sóttvarnaraðgerðum í álfunni. Það hefur ekki einungis áhrif á lífsviðurværi þeirra sem starfa innan þessara geira, heldur getur þetta haft alvarlegar afleiðingar fyrir menningu og arfleifð Evrópu. Þannig sé framtíð Evrópu samofin menningararfi Evrópu og þeim sköpunarkrafti sem býr í íbúum álfunnar, sagði Apostolos Tzitzikostas og bætti við að þess vegna verði ríki Evrópu að styðja betur við þennan geira atvinnulífsins og þannig tryggja að hann komi sæmilega óskaddaðir út úr því ástandi sem nú ríkir.
Mariya Gabriel, framkvæmdastjóri ESB á sviði nýsköpunar, rannsókna, menningar og menntunar tók undir þetta og lýsti yfir verulegum áhyggjum af stöðu lista- og menningargeirans í Evrópu í dag. Hún hvatti til þess að ríki, sveitarfélög og borgir Evrópu leggist á eitt við að aðstoða þessa geira. Þá lagði hún áherslu á að evrópsk sveitarfélög sæki í þá fjármuni sem er að finna innan evrópskra samstarfsáætlana og sérstaklega eru eyrnamerktir listum og menningu.
Á Íslandi er staðan svipuð og hjá nágrannríkjum okkar í Evrópu og ljóst er að sóttvarnaraðgerðir hafa mikil áhrif á lista- og menningargeirann hér á landi. Í október á síðasta ári kynntu íslensk stjórnvöld aðgerðir fyrir menningarlífið hér á landi, en þá er einnig vert að minna á að íslenskir aðilar hafa rétt á að sækja í þá sjóði ESB sem Ísland er aðili að. Þar má meðal annars nefna sjóði eins og Creative Europe MEDIA sem fjármagnar verkefni sem falla undir kvikmyndaáætlun ESB og Creative Europe Menning sem fjármagnar verkefni sem falla undir menningaráætlun ESB.
Nánari upplýsingar um samstarfsáætlanir ESB og tækifæri þeim tengdum er að finna á vefsíðu Rannís, www.rannis.is.