Styrkjatækifæri fyrir sveitarfélög 

Evrópusambandið hefur fjármagnað nokkur verkefni sem hafa það að markmiði að veita sveitarfélögum í Evrópu stuðning, bæði fjárhagslegan og faglegan, vegna vinnu sem þau þurfa að ráðast í vegna orkuskipta og aðlögunar að loftslagsbreytingum.

Verkefnin eiga það sameiginlegt að umsóknareyðublöð og -ferli eru einföld og það er frekar stuttur tími sem fer í mat umsókna.  

Pathways2Resilience - umsóknarfrestur er til 22. febrúar

Viljið þið auka þekkingu á aðlögun að loftslagsbreytingum og hæfnina til að takast á við þær? Verkefnið Pathways2Resilience hefur birt fyrstu auglýsingu sína eftir umsóknum um styrki sem sveitarfélög eða svæði geta sótt um séu þau tilbúin að tileinka sér aðferðafræðina sem þróuð hefur verið í verkefninu. Styrkurinn er 210.000 Evrur en auk hans býður starfsfólk verkefnisins stuðning og þjálfun á öllum skrefum verkefnisins. Skilafrestur umsókna er 22. febrúar.
Upplýsingar um verkefnið.

PROSPECT+ - Skráning er opin til 1. mars

PROSPECT+ verkefnið býður þátttakendum upp á ókeypis þjálfun um hitt og þetta sem snýr að fjármögnun verkefna sem tengjast orku og loftslagsmálum. Upplýsingar um námskeiðið. Skráning er opin til 1. mars. Umsóknareyðublað.

CLIMAAX - umsóknarfrestur til 8. mars

Þarf að vinna svæðisbundið áhættumat vegna loftslagsbreytinga og náttúruvár í þínu sveitarfélagi? Ef svo er býður verkefnið CLIMAAX upp á styrki að upphæð 300.000 Evrur, leiðbeiningar og aðferðafræði sem hægt er að beita við gerð slíks áhættumats og stuðning sérfræðinga í ferlinu. Skilafrestur er 8. mars.
Upplýsingar um verkefnið.

European City Facility - umsóknarfrestur til 15. mars

Virðist óvinnandi vegur að fjármagna orkuskipti í sveitarfélaginu þínu? Langar þig að læra að gera fjárfestingaráætlun sem styður við orkuskipti? Ef svo er gæti European City Facility verið eitthvað fyrir þig. Veittir eru styrkir upp á 60.000 Evrur auk faglegs stuðnings við gerð áætlunarinnar. Skilafrestur umsókna er 15. mars.
Nánar um European City Facility.