Stuðningur til að efla virkni, vellíðan og félagsfærni barna í viðkvæmri stöðu á tímum COVID-19

Samþykkt hefur verið að veita 75 m.kr. til að styðja fjárhagslega við þau sveitarfélög, sem umfram hefðbundið sumarstarf sumarið 2020, hyggjast auka við frístundastarfsemi fyrir börn í sérstaklega viðkvæmri stöðu.

Samþykkt hefur verið að veita 75 m.kr. til að styðja fjárhagslega við þau sveitarfélög, sem umfram hefðbundið sumarstarf sumarið 2020, hyggjast auka við frístundastarfsemi fyrir börn í sérstaklega viðkvæmri stöðu. Horft er til aldurshópsins 12 til 16 ára með sérstaka áherslu á að leitað verði einstaklingsbundinna leiða til að ná til þess hóps barna sem hvað síst sækja reglubundið frístundastarf.

Gert er ráð fyrir að sveitarfélög geti sótt ákveðið fjármagn til félagsmálaráðuneytisins til að efla verkefni eða hefja verkefni af þessu tagi. Við útdeilingu fjármagns verður hlutfallslegur fjöldi barna á aldrinum 12 til 16 ára í hverju sveitarfélagi hafður til viðmiðunar. Líkur eru á að sá aldurshópur gæti verið í hvað minnstri virkni yfir sumartímann og í aukinni áhættu hvað varðar t.d. áhættuhegðun eða kvíða.

Þau sveitarfélög sem óska eftir fjármagni skulu senda inn umsókn fyrir 2. júní nk., í gegnum eyðublaðavef Stjórnarráðsins.

Í umsókninni þarf eftirfarandi að koma fram (sjá nánar í umsóknareyðublaðinu):

  • Verkefnisáætlun
  • Tímalína
  • Markhópur
  • Samstarfsaðilar
  • Fjárhagsáætlun
  • Tengiliður sveitarfélags vegna umsóknarinnar

Uppfylli verkefnið fyrrgreind markmið um aukin stuðning við viðkvæman hóp barna sumarið 2020, fær sveitarfélag eingreiðslu í byrjun júní nk.

Þau sveitarfélög sem fá úthlutað fjármagni til verkefnisins skulu skila stuttri skýrslu um framvindu og árangur til félagsmálaráðuneytisins fyrir 1. október 2020 á netfangið frn@frn.is undir heitinu “Skýrsla um aukna frístundastarfsemi fyrir börn í viðkvæmri stöðu, sumarið 2020 vegna COVID-19 frá (nafn sveitarfélags)“.