Stofnun norrænna samtaka um flokkunarmerkingar

Þann 13. desember sl. var stofnfundur norrænna samtaka um samræmdar flokkunarmerkingar. Samtökin kallast EUPIcto og hefur undirbúningur staðið yfir í um tvö ár.

Að samtökunum standa fulltrúar svæðisbundinna stjórnvalda á Íslandi, Svíþjóð, Danmörku og Finnlandi. Merkingarnar byggja á dönsku kerfi sem hefur verið við lýði í um 5 ár. Danir ákváðu að bjóða öllum Norðurlöndunum að nýta merkingarnar og aðlaga að sínum aðstæðum enda hefur innleiðing þess gengið framar vonum í Danmörku. Samtökunum er ætlað að tryggja áframhaldandi samræmingu merkinganna á Norðurlöndunum og vinna að mótum fleiri merkinga. Önnur lönd hafa lýst áhuga á að ganga inn í samstarfið og má þá sérstaklega nefna Eystrasaltsríkin.  

Samband íslenskra sveitarfélaga er stofnaðili að samtökunum og er fulltrúi Íslands Jón Viggó Gunnarsson framkvæmdarstjóri SORPU bs. Umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefur ákveðið að styrkja verkefnið og þátttöku Íslands til loka árs 2023. Sambandið hefur gengið til samninga við FENÚR, fagráð um endurnýtingu og úrgang, um áframhaldandi innleiðingu merkinganna hérlendis. Félagið staðfærði, þýddi og gaf út merkingarnar í nóvember 2020 og eru þær aðgengilegar gjaldfrjálst á vefsíðu félagsins: https://fenur.is/. Merkingunum fylgir handbók um notkun þeirra.

Með breytingu á lögum nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs er sveitarfélögum gert skylt að nota samræmdar merkingar EUPicto fyrir 1. janúar 2023. Krafan nær a.m.k. fyrir eftirfarandi úrgangstegundir: pappír og pappa, málma, plast, gler, lífúrgang, textíl og spilliefni.

Tilgangur samræmdu norrænu merkinganna er að upplýsingar um flokkun og söfnun úrgangs séu alls staðar eins. Merkingarnar eru valfrjálsar og gjaldfrjálsar og almenningur mun einungis þurfa að þekkja brot af þeim 81 merkingum sem standa til boða. Markmið samræmdu merkinganna er að auðvelda notendum að flokka eins og til er ætlast og stuðla þannig að hreinni úrgangsstraumum og aukinni endurnotkun og endurvinnslu. Auðvelt er að aðlaga merkingarnar að þeirri söfnun sem er til staðar þar sem kerfið byggir á LEGO kubba hugsun og er í senn sveigjanlegt og samræmt. Ef fleiri en einn flokkur á að fara í sama ílátið eru notaðar fleiri en ein merking. Merkingarnar geta orðið til þess að flokkun og skil úrgangs við heimili, vinnustaði, sumarbústaði, söfnunarstöðvar og á ýmsum viðburðum sé sambærileg. Hér er því um að ræða eitt af lykilverkefnum við innleiðingu hringrásarhagkerfis hér á landi.