19. júl. 2017

Úrskurður um löggæslukostnað vegna bæjarhátíðar

Þann 30. júní sl. var kveðinn upp úrskurður í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu í máli sem varðaði kæru Norðurþings vegna þeirrar ákvörðunar lögreglustjórans á Norðurlandi eystra að krefja sveitarfélagið um greiðslu kr. 600.000 vegna löggæslukostnaðar í tengslum við bæjarhátíðina Mærudaga sem haldin var í júlí 2016. Við málsmeðferðina naut sveitarfélagið aðstoðar frá lögfræði- og velferðarsviði Sambands íslenskra sveitarfélaga enda lá fyrir að niðurstaða málsins gæti orðið fordæmisgefandi.

Niðurstaða ráðuneytisins er sú að hin kærða ákvörðun lögreglustjóra hafi ekki átt sér nægilega skýra lagastoð og verði því að teljast ólögmæt, þar sem um sé að ræða íþyngjandi stjórnvaldsákvörðun. Samkvæmt þeim gögnum sem lágu fyrir í málinu var ekki seldur aðgangur að hátíðinni og hún hafi ekki skilað sveitarfélaginu hagnaði. Hátíðin hafi því ekki verið haldin í atvinnuskyni. Er ákvörðunin því felld úr gildi en ráðuneytið tók hins vegar ekki afstöðu til kröfu Norðurþings um endurgreiðslu löggæslukostnaðar vegna fyrri ára.

Í úrskurðinum er jafnframt vísað til lögskýringargagna, en í nefndaráliti samgöngunefndar Alþingis, um frumvarp sem varð að lögum nr. 85/2007, um veitingastaði, gististaði og skemmtanaleyfi segir m.a.: Töluverð umræða varð í nefndinni um 17. gr. frumvarpsins sem fjallar um tækifærisleyfi. Nefndin áréttar að umrætt ákvæði gildi einungis um skemmtanir og atburði sem fara fram utan veitinga- og gististaða í atvinnuskyni. Undir ákvæðið falla því ekki atburðir og skemmtanir á vegum sveitarfélaga, t.d. bæjarhátíðir og æskulýðs- og íþróttahátíðir sem ekki eru haldnar í atvinnuskyni, en í slíkum tilvikum er aðgangur ekki seldur að skemmtun eða atburði.

Úrskurður ráðuneytisins er í meginatriðum samhljóða úrskurði sem ráðuneytið kvað upp fyrr á árinu vegna bæjarhátíðarinnar Síldarævintýri á Siglufirði árið 2016. Væntir sambandið þess að úrskurðirnir leiði til breytts verklags hjá þeim lögregluembættum sem gengið hafa harðast fram gagnvart sveitarfélögum um innheimtu löggæslukostnaðar vegna bæjarhátíða.