14. okt. 2015

Tekjustofnar sveitarfélaga í brennidepli

Tekjustofnar sveitarfélaga hafa verið áberandi í ályktunum landshlutasamtaka sveitarfélaga en þau halda aðalfundi sína nú á haustdögum. Nú þegar hafa aðalfundir SSA, Eyþings, FV og SSS farið fram, sem og haustþing SSV. SSNV heldur sinn aðalfund 16. október, SSH og SASS halda sína aðalfundi síðustu helgina í október.

Í ályktun Sambands sveitarfélaga á Austurlandi (SSA) segir m.a.:

„Mikilvægt er að renna styrkari stoðum undir tekjustofna sveitarfélaga. Útgjöld sveitarfélaga hafa vaxið og verkefnum fjölgað, en tekjuliðir hafa ekki fylgt þeirri þróun. Mikilvægt er að sveitarfélög fái aukna hlutdeild í heildarskatttekjum samfélagsins. Ýmsar atvinnugreinar, s.s. ferðaþjónusta, skapa tekjur í heimabyggð en kalla einnig á aukin útgjöld, bæði við ferðamannastaði og við ýmsa innviði samfélagsins. Því beinir fundurinn því til stjórnvalda og Sambands íslenskra sveitarfélaga að taka til athugunar á hvern hátt styrkja megi almennan tekjugrundvöll sveitarfélaga svo þau geti sinnt lögbundnu þjónustuhlutverki sínu á sómasamlegan hátt.“

Hið sama er uppi á teningnum í ályktunum Eyþings, þar sem skorað er á ríkisstjórn Íslands að beita sér fyrir nauðsynlegum breytingum á tekjustofnum sveitarfélaga til að tryggja að þeir séu í samræmi við þau verkefni sem sveitarfélögunum eru falin og bent á mikilvægi þess að sveitarfélögin fái aukna hlutdeild í heildarskatttekjum samfélagsins.

Málefni fatlaðs fólks

Landshlutasamtökin hafa einnig lagt áherslu á að ríkið þurfi að auka framlag til þeirra málefna fatlaðs fólks. Í ályktun Fjórðungssambands Vestfirðinga (FV) er farið fram á endurmat á jöfnun vegna þjónustu við fatlað fólk.

„Ef full fjármögnun málaflokksins verður ekki tryggð eru ekki aðrir möguleikar í stöðunni fyrir sveitarfélög á Vestfjörðum en að skila verkefninu til ríkisins.“

Haustþing SSV ályktar á sama hátt og FV og skorar á alþingi að hækka fjárveitingar til málefna fatlaðra, annað hvort í gegnum hækkuð framlög Jöfnunarsjóðs eða hærra útsvarshlutfall sveitarfélaga, þannig að sveitarfélögin geti sinnt þessu mikilvæga verkefni.

Ályktanir aðalfunda landshlutasamtaka