16. apr. 2018

Sveitarfélögum fækkar um tvö að kosningum loknum

Kosið verður til 72 sveitarstjórna í 74 sveitarfélögum í komandi sveitarstjórnarkosningum. Samning Fjarðabyggðar og Breiðdalshrepps var samþykkt nýlega með miklum meirihluta greiddra atkvæða. Í nóvember sl. samþykktu einnig Sandgerði og Sveitarfélagið Garður að sameinast.

Kjörsókn var ríflega 36% í Fjarðabyggð og samþykktu þar af um 87% íbúa sameininguna. Í Breiðdalshreppi voru 85% því hlynnt en kjörsókn var hins vegar 65%. Í Fjarðabyggð býr 4.961 en 183 í Breiðdalshreppi og verður sameinaður íbúafjöldi því yfir 5.000 manns.

Þá tekur Breiðdalsvík við sem syðsti bærinn í Fjarðabyggð, en þá stöðu hefur Stöðvarfjörður haft til þessa. Aðeins 19 km. skilja þessa tvo staði að. Fjöldi bæjarfulltrúa verður óbreyttur frá því sem nú er í Fjarðabyggð eða níu talsins.

Sameinað sveitarfélag fær 698 m.kr. framlag greitt úr Jöfnunarsjóði á næstu fjórum árum. Af því verður um 250 m.kr. veitt til innviðauppbygginga á Breiðdalsvík, en að öðru leyti verður framlaginu varið til að greiða niður skuldir sameinaðs bæjarsjóðs, að því er fram kemur í frétt Morgunblaðsins um málið.

Stuðningur var einnig afgerandi í íbúakosningum sem fóru fram í sveitarfélögunum á Suðurnesjum. Meira en helmingur af þeim íbúum sem voru á kjörskrá skiluðu sér í kjörklefann í hvoru sveitarfélagi fyrir sig og í Sveitarfélaginu Garði samþykktu 71,5% sameiningu. Stuðningur reyndist minni í Sandgerði, þar sem um 56% samþykktu að sameinast.

Íbúar í Garði eru 1.625 og fjölgaði um 6% á síðasta ári. Í Sandgerði búa 1.760 manns og fjölgaði íbúum þar um ríflega 8% á síðasta ári. Íbúafjöldi sameinaðs sveitarfélags verður því um 3.385 talsins.

Jöfnunarsjóðir veitir nýju sameinuðu sveitarfélagi 100 m.kr. framlag til endurskipulagningar á stjórnsýslu og þjónustu og 294 m.kr. framlag til skuldajöfnunar. Einn bæjarstjóri verður fyrir sameinað sveitarfélag og níumanna bæjarstjórn. Fjallað er nánar um tölulegar staðreyndir sameiningar.

Sameing-sveitarfelagaLjósmyndin hér að ofan er úr kynningu Frosta Ólafssonar, framkvæmdastjóra Viðskiptaráðs á ársþingi SASS sem fram fór 29. október 2015.