07. maí 2020

Sumarstörf fyrir námsmenn – umsóknarfrestur rennur út 8. maí

  • Photo by Priscilla Du Preez on Unsplash

Ríkisstjórn Íslands hefur ákveðið að verja um 2.200 milljónum króna úr Atvinnuleysistryggingasjóði til að standa straum af átaksverkefni um að fjölga tímabundnum störfum fyrir námsmenn í sumar. Vinnumálastofnun mun stýra átakinu sem efnt er til í samvinnu við stofnanir ríkisins og sveitarfélög. Vonir standa til að með átakinu verði hægt að skapa allt að 3.400 tímabundin störf í sumar fyrir námsmenn á milli anna sem skiptast á milli opinberra stofnana og sveitarfélaga.

Alþingi er með málið til umfjöllunar en verði frumvarp til fjáraukalaga að lögum mun framlag Atvinnuleysistryggingasjóðs nema að hámarki grunnfjárhæð atvinnuleysisbóta sem er 289.510 kr. (+11% framlags í lífeyrissjóð) fyrir hvert starf samtals, 321.356 kr. sem miðast við fullt starf.

Vinnumálastofnun hefur sent sveitarfélögunum bréf þar sem þau eru beðin um að senda inn ósk um þann fjölda starfa sem þau vilja skapa með átakinu en áður hafði Samband íslenskra sveitarfélaga sent sveitarfélögum upplýsingar um átakið og hvatt þau til að hefja undirbúning.

Nauðsynlegt er að vinna verkefnið hratt þar sem vorönn fer að ljúka og er því frestur til að skila inn óskum um fjölda starfa stuttur eða til 8. maí næstkomandi. Vinnumálastofnun mun vinna hratt úr óskum og senda sveitarfélögum upplýsingar um fjölda ráðningarheimilda 12. maí næstkomandi og geta sveitarfélög í kjölfarið auglýst umrædd störf.

Nánar um forsendur, skilyrði og ferlið vísast til meðfylgjandi bréfs Vinnumálastofnunar til sveitarfélaga.