05. des. 2016

Spilling og bætt siðferði

Ályktun Sveitarstjórnarþings Evrópuráðsins á haustþingi 2016 um aðgerðir til að berjast gegn spillingu og stuðla að bættu siðferði í sveitarfélögum og á svæðum.

Í ályktuninni kemur fram að spillingu megi finna víða, s.s. vegna hagsmunaárekstra, við ráðningu starfsfólks, í opinberum innkaupum og þegar stjórnsýslan er misnotuð til að hafa áhrif í kosningum. Hins vegar sé ekki til nein algild skilgreining á hvað felist í hugtakinu spilling. Það sé misjafnt eftir löndum og menningu hvernig hugtakið sé skilgreint. Gagnsæir ferlar og -stjórnsýsla sé lykilatriði til að berjast gegn spillingu og upplýsingatækni geti veitt mikilvægan stuðning til þess.  Berjast þarf gegn spillingu með dómsvaldi- og hegningarlagaúrræðum og með fyrirbyggjandi aðgerðum. Þingið samþykkti að fela stjórnunarnefnd sinni að vinna skýrslur um aðgerðir gegn spillingu á mismunandi sviðum, þ.e. skýrslum um

  1. gagnsæi,
  2. hagsmunaárekstra,
  3. uppljóstrara og vernd þeim til handa,
  4. nepotisma (ráðning starfsfólks),
  5. opinber innkaup og
  6. misnotkun á stjórnsýslunni í kosningum en á á þinginu var samþykkt ályktun um það efni.

Með ályktuninni samþykkti þingið enn fremur að endurskoða siðareglur sínar frá 1999 sem hafa verið þýddar á íslensku og eru aðgengilegar hér á síðunni (siðareglur CLRAE). Þingið telur að þróunin síðan 1999 kalli á endurskoðun og einnig sé ástæða til að víkka út gildissvið reglnanna þannig að þær taki ekki eingöngu til kjörinna fulltrúa, heldur einnig til starfsmanna sveitarfélaga og svæða. Þá er í ályktuninni áréttað að þingið muni halda áfram samstarfsverkefnum sínum með löndum þar sem úttektir þingsins hafa sýnt að þörf er á aðgerðum til að berjast gegn spillingu. Þingið beinir því einnig til sveitar-og svæðisstjórna og samtaka þeirra að móta stefnu til að berjast gegn spillingu og standa fyrir fræðslu til kjörinna fulltrúa og embættismanna.

Ályktunin með greinargerð er aðgengileg hér  http://www.coe.int/t/congress/sessions/31/NewsSearch/default_en.asp?p=nwz&id=8015&lmLangue=1