Skráning raunverulegra eigenda – skylda sveitarfélaga

Frá og með 30. ágúst 2019 ber skráningarskyldum lögaðilum að skrá raunverulega eigendur hjá ríkisskattstjóra. Raunverulegur eigandi er alltaf einstaklingur, einn eða fleiri, og er sá sem í raun á starfsemi eða stýrir lögaðila með beinum eða óbeinum hætti. Raunverulegur eigandi er ekki endilega skráður eigandi fjármuna, eigna eða fyrirtækja.

Frá og með 30. ágúst 2019 ber skráningarskyldum lögaðilum að skrá raunverulega eigendur hjá ríkisskattstjóra. Raunverulegur eigandi er alltaf einstaklingur, einn eða fleiri, og er sá sem í raun á starfsemi eða stýrir lögaðila með beinum eða óbeinum hætti. Raunverulegur eigandi er ekki endilega skráður eigandi fjármuna, eigna eða fyrirtækja.

Flest sveitarfélög eru í þeirri aðstöðu að vera eigendur eða aðilar að lögaðila, t.d. eru mörg sveitarfélög aðilar að byggðasamlögum, sameignarfélögum eða eiga hlut í einkahlutafélögum eða hlutafélögum. Flest sveitarfélög eru einnig aðilar að félagasamtökum ásamt því sem landshlutasamtök eru stundum skráð sem félagasamtök. Hafa þarf þó í huga að undanþegnir skráningu eru stofnanir og fyrirtæki í eigu ríkis og sveitarfélaga og lögaðilar sem skráðir eru á skipulegum markaði samkvæmt skilgreiningu laga um kauphallir. Er því líklegt að sveitarfélög þurfi ekki að skrá alla lögaðila er þau tengjast.

Frestur til að skrá raunverulega eigendur er til 1. mars nk. og því er mikilvægt að sveitarfélög bregðist strax við og fari yfir tengda lögaðila og hvort þeim beri að skrá raunverulega eigendur eða ekki. Inn á vefsvæði fyrirtækjaskrár RSK er hægt að sjá grunnskráningu allra lögaðila og hvernig félagaformið er skráð í fyrirtækjaskrá. Hafa þarf þó í huga að þegar kemur að raunverulegum eigendum og skráningarskyldu er ekki eingöngu horft á félagaformið heldur starfsemina sjálfa og hver er raunverulegur eigandi þess. Þessi skráning gefur því eingöngu vísbendingu um hvort það beri að skrá raunverulega eigendur eða ekki, eða hvort frekari rannsóknarvinnu sé þörf.

Hægt er þó að miða við eftirfarandi atriði:

  • Sé lögaðili skráður sem stofnun sveitarfélags eða er félag eingöngu í eigu sveitarfélaga þá er almennt ekki þörf á að skrá raunverulega eigendur. Dæmi um slík félög eru t.d. Hafnasamband Íslands sem er skráð sem stofnun sveitarfélags, Sorpa bs. sem er byggðasamlag í eigu sveitarfélaga og Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum sem er skráð sem stofnun sveitarfélags.
  • Sé lögaðili félagasamtök, félag í blandaðri eigu eða félagaform er óljóst, ber að skrá raunverulega eigendur og hugsanlega stjórnir þegar það á við í samræmi við leiðbeiningar RSK. Dæmi um slík félög eru Samband íslenskra sveitarfélag sem er skráð sem félagasamtök, Samband sveitarfélaga í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum sem er skráð félagasamtök og Samtök orkusveitarfélaga sem einnig eru félagasamtök.

Sveitarfélög eru hvött til þess að skoða öll félög er þau tengjast og hugsanlega fá sérfræðiaðstoð ef vafi leikur á um skyldu til skráningar. Ítrekað er að RSK hefur heimildir til að sekta félög sem ekki verða búin að skila inn upplýsingum um raunverulega eigendur 1. mars nk. og því stuttur tími til stefnu. Hægt er að skrá raunverulega eigendur rafrænt og á það að taka eingöngu stutta stund.

RSK hefur gefið út ítarlegar upplýsingar um raunverulega eigendur og leiðbeiningar um rafræna skráningu á raunverulegum eigendum og er hægt að nálgast allar frekari upplýsingar hjá RSK.