29. mar. 2019

Samþykkt XXXIII. landsþings gegn áformum um skerðingu á framlögum til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga

XXXIII. landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga hefur samþykkt að krefjast þess, að áform ríkisstjórnarinnar um að skerða framlög ríkissjóðs til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga á næstu tveimur árum verði dregin til baka.

Samþykkt landsþingsins er í heild sinni eftirfarandi: 

Landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga krefst þess að þau óásættanlegu áform sem fram koma í fyrirliggjandi tillögu að fjármálaáætlun ríkisins fyrir árin 2020-2024 um að skerða framlög ríkissjóðs til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga næstu tvö ár um 3,3 ma.kr. verði dregin til baka.

Landsþingið minnir á að í 11. gr. laga um opinber fjármál er kveðið á um að við mótun fjármálaáætlunar skuli ráðherra leita samkomulags við Samband íslenskra sveitarfélaga. Engar viðræður fóru fram um málið heldur var fulltrúum sveitarfélaga tilkynnt um þessa ákvörðun. Landsþingið telur vinnubrögð fjármála- og efnahagsráðuneytisins í málinu vera með öllu óásættanleg enda væri þannig verið að skapa hættulegt fordæmi um að ríkisvaldið grípi einhliða inn í lögbundna tekjustofna sveitarfélaga. Ljóst er jafnframt að fyrirhuguð skerðing framlaga jöfnunarsjóðs kemur misjafnlega niður á sveitarfélögum og bitnar harðast á sveitarfélögum utan höfuðborgarsvæðisins.

Landsþing sambandsins fer fram á að ríkisstjórnin og Alþingi tryggi að samskipti ríkis og sveitarfélaga verði á jafnræðisgrundvelli þar sem virðing og traust ríki á milli aðila. Slík samskipti hafa verið að byggjast upp undanfarin ár með góðum árangri, en er nú ógnað af hálfu ríkisins með því frumhlaupi sem landsmenn hafa orðið vitni að í þessu máli.

Landsþingið lýsir sambandið engu að síður tilbúið í viðræður um málið. 

XXXIII. landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga fer fram 29. mars 2019 á Grand hóteli Reykjavík. Fylgjast má með landsþinginu í beinni útsendingu á www.samband.is/beint