03. feb. 2017

Ræða leiðir til að styrkja sveitarstjórnarstigið

Verkefnisstjórn sem hefur það hlutverk að greina sveitarstjórnarstigið og skilgreina tækifæri og leiðir til að styrkja það hefur nú hafið fundaferð þar sem markmiðið er að ræða við og hlusta á sveitarstjórnarmenn um efnið. Fyrsti fundurinn var haldinn í síðustu viku á Hólmavík með fulltrúum sveitarfélaga á Vestfjörðum og nú í vikunni voru fundir á Hvolsvelli og Selfossi með fulltrúum sunnlenskra sveitarfélaga.

Forsaga málsins er sú að í byrjun ársins 2016 skipaði þáverandi ráðherra sveitarstjórnarmála 5 manna verkefnisstjórn til að greina íslenska sveitarstjórnarstigið og skilgreina bæði tækifæri og leiðir til að styrkja það enn frekar. Formaður verkefnisstjórnar er Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir, ráðgjafi hjá Ráðrík ehf. og fyrrverandi sveitarstjóri, skipuð af ráðherra, en auk hennar eru í verkefnisstjórninni Gunnar Axel Gunnarsson og Aldís Hafsteinsdóttir, skipuð af Sambandi ísl. sveitarfélaga, Sjöfn Vilhelmsdóttir, forstöðumaður Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála Háskóla Íslands og Sigurður H. Helgason frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Stefanía Traustadóttir, sérfræðingur í ráðuneytinu, er starfsmaður verkefnisstjórnar.

Verkefnisstjórnin hefur valið að leggja af stað í þessa vegferð með eftirfarandi spurningu að leiðarljósi: Hvað er sveitarfélag? Í verkefnislýsingu segir að markmið verkefnisins sé að efla sveitarstjórnarstigið með:

  • Stærri, öflugri og sjálfbærum sveitarfélögum og breyttri verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga.
  • Markvissari samskiptum ríkis og sveitarfélaga.
  • Nýtingu rafrænnar tækni við stjórnsýslu.
  • Auknu samráði við íbúa um stefnumörkun og ákvarðanatöku á öllum sviðum.

Sjöfn Vilhelmsdóttir kynnir helstu niðurstöður íbúakönnunar.Verkefnisstjórnin leggur mikla áherslu á samráð og samvinnu við fulltrúa sveitarstjórna og landshlutasamtaka sveitarfélaga. Henni til aðstoðar var m.a. skipaður 20 manna bakhópur sem í eiga sæti kjörnir fulltrúar af landshlutasamtökunum, fulltrúar ungmennaráða sveitarfélaga, háskólasamfélagsins og ýmsir aðrir sérfræðingar um málefni sveitarfélaga.

Allir landshlutar verða heimsóttir

Allir landshlutar verða heimsóttir og er ástæða til að þakka framkvæmdastjórum landshlutasamtaka sveitarfélaga fyrir aðstoðina við undirbúning. Á fundunum verða niðurstöður íbúakönnunar kynntar og leitað eftir viðbrögðum við niðurstöðum hennar auk þess sem leitað verður eftir viðhorfum fundarmanna til viðfangsefnis verkefnisstjórnarinnar, þ.e. hvað er sveitarfélag, hver er staða íslenskra sveitarfélaga, hvernig lítur framtíðin út.

Verkefnisstjórnin ákvað að ráðast í rannsókn á viðhorfum íbúa sveitarfélaga og fékk til samstarfs Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands. Markmið hennar er afla upplýsinga um upplifun íbúa á og viðhorf og væntingar þeirra til sveitarfélags síns með spurningum á borð við: Hvað er það sem skiptir íbúana mestu máli varðandi tilveru, rekstur og framtíð sveitarfélagsins og hvernig tengja þeir sig við sveitarfélagið sitt.

Frá fundi með sveitarstjórnarfólki á Vestfjörðum.

Niðurstöðurnar munu varpa ljósi á hvað það er í sveitarfélaginu og rekstri þess sem skiptir íbúana mestu máli og hvaða þættir skipta þá minna máli. Slíkar upplýsingar eru gagnlegar við að greina leiðir og valkosti fyrir langtíma stefnumótun fyrir sveitarfélögin sem og sveitarstjórnarstigið sjálft; þegar sveitarfélög þurfa að bregðast við breyttum rekstrarforsendum vegna samfélags- og lýðfræðilegra breytinga eða fólksflutninga, og/eða vegna tilfærslu verkefna frá ríki til sveitarfélaga. 

Verkefnið verður kynnt á þingi Sambands íslenskra sveitarfélaga í lok mars og mun verkefnisstjórn í framhaldinu skila ráðherra lokaskýrslu. Er henni ætlað að örva umræður og verða grunnur að víðtæku samráði um stefnumótun til lengri tíma um eflingu sveitarstjórnarstigins og framtíð íslenskra sveitarfélaga.