29. jan. 2019

Persónuvernd staðfestir að Mentor-málinu er lokið

Persónuvernd hefur staðfest að máli vegna vinnslu persónuupplýsinga hjá fimm grunnskólum í rafræna upplýsingakerfið Mentor sé lokið. Nú þegar niðurstaða Persónuverndar liggur fyrir ætti að vera óhætt fyrir grunnskólana að nýta sér Mentor, s.s. vegna skráningar viðkvæmra persónuupplýsinga, að því gefnu að þeir aðilar sem nota kerfið kynni sér vel þær reglur er gilda um skráningu persónuupplýsinga.

Þann 22. janúar sl. staðfesti Persónuvernd að máli stofnunarinnar vegna vinnslu persónuupplýsinga hjá fimm grunnskólum í rafræna upplýsingakerfið Mentor væri lokið og að það væri mat Persónuverndar að vinnslan uppfyllti nú þau fyrirmæli sem lögð voru fyrir skólana í áliti stofnunarinnar frá 22. september 2015. Samhliða vinnslu þessa máls hjá Persónuvernd fóru allir grunnskólar landsins sameiginlega í vinnu við gerð áhættumats og innleiðingu reglubókar. Nú þegar niðurstaða Persónuverndar liggur fyrir er ljóst að vinnsla persónuupplýsinga í Mentor er í samræmi við ný lög um persónuvernd. 

Forsaga málsins er sú að Persónuvernd framkvæmdi frumkvæðisathugun á vinnslu persónuupplýsinga í Mentor hjá fimm grunnskólum sem valdir voru af handahófi árið 2015. Niðurstaðan var að vinnsla persónuupplýsinga í Mentor væri ekki í samræmi við lög um persónuvernd. Beindi Persónuvernd sérstökum tilmælum í fimm liðum til skólanna um úrbætur. Málið hefur því verið í vinnslu um langan tíma en um svipað leyti var hafinn undirbúningur fyrir nýja löggjöf í persónuvernd. Var því unnið út frá því markmiði að gengið yrði úr skugga um að allar úrbætur myndu uppfylla skilyrði nýju laganna. Þetta ferli hefur því verið mikilvægur stuðningur fyrir grunnskóla og sveitarfélög við innleiðingu á nýrri löggjöf um persónuvernd. 

Nú þegar vinnsla persónuupplýsinga í Mentor telst uppfylla skilyrði laga um persónuvernd er mikilvægt að þeir aðilar er nota kerfið kynni sér þær reglur er gilda um skráningu persónuupplýsinga. Lög um persónuverndar leggja ríka áherslu á að við vinnslu persónuupplýsinga sé ekki eingöngu tryggt að tæknileg útfærsla sé fullnægjandi heldur ber að huga að því hvaða upplýsingar séu skráðar. Því ber að gæta að meginreglum nýrra persónuverndarlaga við skráningu í Mentor sem og í allri starfsemi grunnskóla og sveitarfélaga. Nánari umfjöllun um meginreglur persónuverndarlaga má nálgast á vef Persónuverndar.