05. nóv. 2010

Eru sveitarfélögin óþolinmóðir kröfuhafar?

  • Uppbodshamar

Í umræðu undanfarinna vikna um nauðungarsölur á fasteignum hefur því verið haldið fram að ýmsir opinberir aðilar sýni litla þolinmæði í innheimtu krafna hjá þeim stóra hópi fólks sem á í greiðsluerfiðleikum vegna bankahrunsins.

Þessi gagnrýni beinist að sveitarfélögum, eins og öðrum opinberum aðilum, en upplýsingar sem nýlega hafa komið fram á Alþingi (svar dóms- og mannréttindaráðherra við fyrirspurn um nauðungarsölur og uppboðsbeiðnir) sýna að sveitarfélög eru mun sjaldnar uppboðsbeiðendur en aðrir þeir aðilar sem verið hafa til umræðu, þ.e. Íbúðalánasjóður, bankar, tryggingafélög og aðrar opinberar stofnanir. Einnig má glögglega sjá það í fyrirliggjandi  gögnum vegna ársins 2010 að aðild sveitarfélaga að uppboðsmálum er oftar en ekki vegna frístundalóða og sumarhúsa.

Hvað varðar uppboðsbeiðnir á heimilum benda óformlegar athuganir sambandsins til þess að þótt sveitarfélög leggi í einhverjum tilvikum fram slíkar beiðnir heyri það til algerra undantekninga að uppboðsbeiðni sveitarfélags hafi leitt til nauðungarsölu á yfirstandandi ári. Þá benda tiltækar upplýsingar ekki til þess að afstaða sveitarfélaga hafi valdið því að synjað væri um sértæka skuldaaðlögun eða að greiðsluaðlögun næði fram að ganga.

Hafa ber einnig í huga að sérstakar reglur hafa gilt frá því í fyrra um tímabundna lengingu á lögveðsrétti vegna fasteignaskatts sem sveitarfélögin innheimta til þess að standa straum af lögbundinni starfsemi sinni.

Þegar bankahrunið reið yfir varð þegar ljóst að margir fasteignareigendur myndu á komandi árum lenda í erfiðleikum með að standa skil á fasteignaskatti. Jafnframt blasti við að tveggja ára regla um lögveðsrétt takmarkaði mjög svigrúm sveitarfélaga til þess að semja um dreifingu eða frestun á innheimtu, án þess að eiga á hættu að lögveðsrétturinn glataðist. Til þess að bregðast við þessari stöðu óskaði Samband íslenskra sveitarfélaga eftir því í nóvember 2008 að gerð yrði lagabreyting þannig að fasteignaskatti sem lagður er á vegna áranna 2008, 2009 og 2010 fylgi lögveðsréttur í fjögur ár frá gjalddaga, í stað tveggja ára. Um tímabundna breytingu væri að ræða í ljósi efnahagsástandsins. Sérstaklega var rætt við lagabreytinguna hvort hún ætti að ná til allra fasteignagjalda en ekki einvörðungu fasteignaskatts. Vilji löggjafans var hins vegar sá að heimildin tæki einungis til fasteignaskatts, enda séu það ólíkir þættir sem mynda fasteignagjöldin, svo sem holræsagjald, vatnsgjald, o.fl.

Alþingi samþykkti þessa tillögu í byrjun mars 2009 og má fullyrða að breytingin hafi síðan komið skuldurum vel og reynst þeim ívilnandi, enda geti þeir þá samið við sveitarfélög um gjaldfrest án þess að nauðungarsöluferli hefjist með tilheyrandi kostnaði. Ekkert bendir til annars en að sveitarfélögin séu samstíga í því að nota það svigrúm sem lagabreytingin gefur. Jafnframt verður hins vegar að leggja áherslu á að fasteignareigendurnir sjálfir sýni frumkvæði og að samkomulag þeirra við hlutaðeigandi sveitarfélag sé liður í heildarendur­skipulagningu á fjármálum viðkomandi.