05. des. 2014

Breytingar á tekjustofnalögum

  • Althingi_300x300p

Samband íslenskra sveitarfélaga hefur sent umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis umsagnir um tvö frumvörp um breytingar á lögum um tekjustofna sveitarfélaga.

Í máli nr. 366 er kveðið á um þrenns konar breytingar á lögum um tekjustofna sveitarfélaga. Er þar í fyrsta lagi um að ræða fjölgun nefndarmanna um tvo í ráðgjafarnefnd ráðherra skv. 15. gr. laganna, í öðru lagi bráðabirgðaákvæði um mildun áhrifa breyttrar aðferðafræði við fasteignamat atvinnuhúsnæðis á álagðan fasteignaskatt og í þriðja lagi bráðabirgðaákvæði um greiðslu sérstaks framlags úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga til mildunar á tekjutapi sveitarfélaga vegna ákvæða laga nr. 40/2014, um séreignarsparnað og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

Sambandið styður að frumvarpið verði að lögum á haustþingi. Í umsögn sambandsins er gagnrýnt að dráttur hafi orðið á framlagningu málsins á Alþingi. Það sé því miður alltof algengt að þingmál um breytingar á tekjustofnum sveitarfélaga séu lögð fram á síðustu vikum haustþings þannig að sveitarstjórnum gefist ekki hæfilegur tími til þess að koma á framfæri athugasemdum við þau. Þetta verklag sé í miklu ósamræmi við þær kröfur sem gerðar eru til sveitarstjórna um afgreiðslu fjárhagsáætlana fyrir næsta ár, en eðli máls samkvæmt geta slíkar lagabreytingar haft umtalsverð áhrif á forsendur fjárhagsáætlana.

Að áliti sambandsins gæti verið ástæða til þess að setja ákvæði í lög um að slík frumvörp þurfi að vera komin fram fyrir ákveðinn tíma, t.d. 1. október, og að óska þurfi eftir afbrigðum ef af einhverjum ástæðum er talin nauðsyn á að víkja frá þeirri reglu.

Brottfall lágmarksútsvars

Í máli nr. 29 er lagt til að ákvæði í 24. gr. laganna um lágmarkshlutfall útsvars falli brott. Að áliti Sambands íslenskra sveitarfélaga er í fyrrgreindu frumvarpi sett fram tillaga að stefnubreytingu sem þarfnast miklu efnismeiri og víðtækari umræðu en kemur fram í greinargerð með frumvarpinu.  Málið snúist efnislega um það hvort ákveðinn hópur launafólks á Íslandi skuli hafa möguleika á að sleppa að miklu eða öllu leyti við að greiða útsvar af launatekjum sínum þegar það tekur ákvörðun um að velja sér búsetu. 

Í umsögninni er rakið hvaða reglur gilda um tekjustofna sveitarfélaga í öðrum norrænum ríkjum, sem eru um margt áþekkar þeirri löggjöf sem gildir hér á landi. Einnig er fjallað um þann aðstöðumun sem skapast getur vegna mikilla fasteignaskattstekna sem tiltölulega fámenn sveitarfélög geta í einhverjum tilvikum notið.

Fámenn sveitarfélög sem hafa miklar tekjur af álagningu fasteignaskatts gætu mögulega lækkað álagningarhlutfall útsvars verulega eða jafnvel niður í 0% ef lágmarksútsvar yrði afnumið með öllu. Það myndi skapa möguleika á innlendum skattaparadísum og tilheyrandi „gervibúsetu“ með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Íbúar þessara sveitarfélaga myndu því sleppa að miklu eða öllu leyti við að greiða útsvar af launatekjum sínum óháð upphæð launa.

Slíkt ójafnræði meðal sveitarfélaga myndi tvímælalaust hafa mikil áhrif á samvinnu sveitarfélaga að ýmsum héraðsbundnum hagsmunamálum. Þar til viðbótar myndi afnám lámarksútsvars að öllum líkindum draga úr áhuga viðkomandi sveitarfélaga til sameiningar við nágrannasveitarfélög.

Samband íslenskra sveitarfélaga telur því óhjákvæmilegt að ef frumvarp um afnám lágmarksútsvars verður samþykkt á Alþingi verði í kjölfarið tekin upp umræða milli sambandsins og viðkomandi ráðuneyta um ráðstöfun fasteignaskatts af stöðvarhúsum vatnsaflsvirkjana. Sömuleiðis þarf að ræða hvaða áhrif slík breyting á lögum um tekjustofna sveitarfélaga myndi hafa á greiðslur úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga.

Á árinu 2014 eru það tvö sveitarfélög á landinu sem leggja á lágmarksútsvar, Skorradalshreppur (58 íbúar) og Ásahreppur (193 íbúar). Samtals eru 241 íbúi í þessum sveitarfélögum. Í 13 öðrum sveitarfélögum er ekki lagt á hámarksútsvar en í 59 sveitarfélögum er lagt á hámarksútsvar sem er 13.03%.

Sambandinu hafa borist allnokkrar umsagnir frá sveitarfélögum, sem öll leggjast gegn samþykkt frumvarpsins.

Miðað við núverandi forsendur er því að áliti sambandsins engin þörf fyrir afnám lögbundins lágmarksútsvars og leggst sambandið eindregið gegn þeirri breytingu sem lögð er til í frumvarpinu.