31. maí 2013

Eitt ár til sveitarstjórnarkosninga

  • kosningar

Í dag, 31. maí, er nákvæmlega ár til næstu sveitarstjórnarkosninga, sem lögum samkvæmt fara ávallt fram síðasta laugardag í maí sem ekki ber upp á hvítasunnuhelgi. Kjördagur verður því 31. maí 2014.

Við sveitarstjórnarkosningarnar sem fram fóru 29. maí 2010 voru sveitarfélögin 76 að tölu. Það sem af er kjörtímabilinu hafa orðið tvær sameiningar sveitarfélaga. Hinn 1. janúar 2012 tók gildi sameining Bæjarhrepps og Húnaþings vestra og hinn 1. janúar 2013 tók gildi sameining Sveitarfélagsins Álftaness og Garðabæjar. Alls eru sveitarfélögin því 74 í dag. Þess má því vænta að kosnir verði eitthvað færri sveitarstjórnarmenn en í kosningunum 2010 en þá voru kjörnir aðalmenn alls 512. Á móti er hugsanlegt að breytingar verði á fjölda kjörinna fulltrúa í einhverjum sveitarfélögum, eins og heimilt er samkvæmt sveitarstjórnarlögum nr. 138/2011.

Þar sem frumvarp til laga um persónukjör í sveitarstjórnarkosningum var ekki samþykkt á 141. löggjafarþingi verður að óbreyttu sama kosningafyrirkomulag í gildi og áður, sbr. lög um kosningar til sveitarstjórna nr. 5/1998. Bendum við á samantekt sambandsins um persónukjör hér á vef sambandsins.

Til frekari fróðleiks um sveitarstjórnarkosningar og hlutverk sveitarstjórna er m.a. bent á tenglana hér fyrir neðan þar sem finna má niðurstöður sveitarstjórnarkosninga 2010, upplýsingar um nýju sveitarstjórnarlögin og námsefni frá námskeiðum  sem Samband íslenskra sveitarfélaga hélt fyrir sveitarstjórnarmenn og stjórnendur sveitarfélaga í upphafi þess kjörtímabils sem nú er að ljúka. Margvíslegar aðrar upplýsingar um sveitarfélögin, laga- og rekstrarumhverfi og verkefni þeirra eru jafnframt aðgengilegar á hér heimasíðu sambandsins.