30. maí 2013

Stefnuyfirlýsing nýrrar ríkisstjórnar og sveitarfélögin

  • rikisstjorn-sdg

Að afloknum alþingiskosningum í apríl sl. var öllum þingmönnum sent bréf frá sambandinu með upplýsingum um helstu áherslur sambandsins í samskiptum þess við Alþingi og ríkisstjórn. Eru þær hluti af ítarlegri stefnumörkun Sambands íslenskra sveitarfélaga sem gildir fyrir árin 2011-2014.

Áhersla á eflingu sveitarstjórnarstigsins

Óskað var eftir því, að við gerð stefnu-yfirlýsingar nýrrar ríkisstjórnar yrði sem mest tillit tekið til stefnumörkunarinnar. Nú liggur stefnuyfirlýsingin fyrir og er sveitarfélaganna getið þar í einstaka greinum.


Fram kemur að ríkisstjórnin leggi áherslu á áframhaldandi styrkingu sveitarstjórnarstigsins og frekara samráð við sveitarfélögin um flutning verkefna til þeirra. Þetta er í góðu samræmi við óskir sambandsins eins og ákvæðið um að unnið verði að samþættingu opinberra áætlana og gerð sérstakra landshlutaáætlana í samvinnu við sveitarfélögin. Þannig verði hlutverk sveitarstjórna og heimamanna á hverjum stað aukið við forgangsröðun verkefna í héraði. Með sama hætti er ákvæðið um að áhersla verði lögð á að bæta stjórnsýslu og þjónustu ríkisins, m.a. með auknu samstarfi ríkis og sveitarfélaga, rafrænni stjórnsýslu og hagnýtingu upplýsingatækni í samskiptum við íbúa, í samræmi við óskir sambandsins.

Breytingar ekki mögulegar án aðkomu sveitarfélaganna

Í stefnuyfirlýsingunni kemur fram að leitað verði leiða til að stytta nám að háskólastigi og auka samfellu milli skólastiga, en sambandið hefur um nokkurt skeið kallað eftir umræðu og athugun á kostum þess að stytta námstímann til útskriftar úr framhaldsskóla. Það sem vekur á hinn bóginn athygli er að í tengslum við þetta er vísað til 10 punkta samkomulags sem menntamálaráðherra og formaður Kennarasambands Íslands skrifuðu undir 2. febrúar 2006 og fjallar um ýmsa þætti í fræðslumálum.

Þetta samkomulag var gagnrýnt alvarlega af sambandinu og sveitarfélögunum á sínum tíma, vegna þess að sambandið var ekki aðili að þessu samkomulagi, þó svo að sveitarfélögin beri ábyrgð á rekstri leik- og grunnskóla. Að auki er búið að framkvæma flesta þætti þessa samkomulags, svo líta verður á að tilvísun í samkomulagið hjóti að vera byggð á einhvers konar misskilningi. Það er hlutverk sambandsins að koma leiðréttingum á framfæri í tengslum við þetta ákvæði, auk þess að kynna fyrir hinum nýja menntamálaráðherra áherslur sambandsins í fræðslumálum. Án samkomulags við sveitarfélögin er vart hægt að hugsa sér miklar breytingar á fyrstu tveimur skólastigunum.

Fleiri áhugverð málefni sem varða sveitarstjórnarstigið fá með beinum eða óbeinum hætti einnig umfjöllun í stefnuyfirlýsingunni. Þau þurfa frekari úrvinnslu við í samvinnu við sveitarfélögin og sambandið. Ljóst er að sambandið mun ekki liggja á liði sínu við að gæta hagsmuna sveitarfélaga við vinnslu þeirra. Það verður gert í sem bestri sátt við ráðherra, ráðuneyti og alþingismenn með sama hætti og áður í samskiptum við þessa aðila. Leiðarljósið verður í samræmi við hlutverk og stefnumörkun sambandsins eins og við á hverju sinni.